36 ár í sjóði.

Greinar

Í þjóðarsögu eru 36 ár ekki langur tími. Lýðveldið er enn ekki orðið svo gróið hér á landi, að hægt sé að spá um framtíð þess langt fram í tímann. Ekki er heldur unnt að spá um framtíð fullveldisins, sem líka er ungt, tæpra 62 ára.

Hvorug talan, 36 eða 62, þætti sérlega minnisverð í lífi manns. En í lífi þjóðar eru þetta tölur æskuára. Á því skeiði er ástæða til að fagna hverju ári, sem safnast áfallalítið í sjóð reynslunnar. 17. júní á morgun skiptir því máli.

Hingað til hefur gæfan oftast brosað við okkur, þótt stundum hafi á móti blásið. Ef við lítum í kringum okkur, er auðvelt að sjá, að hér blómstrar sjálfstætt þjóðfélag auðugs fólks, sem getur leikið við hvern sinn fingur.

Hver skyldi hafa trúað því fyrir svo sem 100 árum, að Íslendingar yrðu síðari hluta tuttugustu aldar í hópi örfárra þjóða, þar sem skortur er lítt þekkt fyrirbæri og meirihluti manna lifir höfðinglegu lífi?

Hingað til hefur þessi velgengni að mestu byggzt á auðlindum hafsins. Þaðan hafa komið verðmætin, sem standa undir listum okkar, íþróttum og vísindum. Fiskurinn veldur því, að Ísland er ekki bara verstöð á hjara veraldar.

Undanfarna daga hefur mátt sjá blómstrandi listir í sölum og á götum höfuðborgarinnar. Hér hafa alizt upp frambærilegir fulltrúar á flestum sviðum menningarmála og frábærir á sumum þeirra. Við lifum fyrir fleira en brauðið.

Menningartindar okkar eru sjálfsagt lægri en hjá stórþjóðunum, þar sem samkeppnin er fjölmenn og markaðurinn óvæginn. En samanburð við nágranna okkar á Norðurlöndum megum við vel við una, þrátt fyrir mikinn mun á íbúafjölda.

Svipað má segja um ýmsa aðra þætti þjóðlífsins, einkum íþróttir og leiki. Hér hafa alizt upp hæfileikamenn í ótal greinum, allt frá kúluvarpi og lyftingum yfir í leikfléttur skákborðsins. Allt ber þetta vott um þrótt í þjóðlífinu.

Þekking í vísindum og tækni er mikil hér á landi. Virðing almennings fyrir langskólanámi hefur lengi verið slík, að flestum, sem geta lært, hefur verið þrýst í þá átt. Við erum því tilbúnir til þátttöku í heimi vísinda og tækni.

Smám saman höfum við farið að láta bókvitið í askana. Sú hugarfarsbreyting hefur að vísu verið hæg og skrykkjótt. Við stefnum alténd í rétta átt. En hraðinn mætti vera meiri, því að verkefnin hrannast upp á ótal sviðum.

Við þurfum að flýta okkur að ná tökum á verndun fiskistofna, svo að við getum í alvöru farið að stefna að sem beztri nýtingu þeirra með sem hagkvæmustum hætti. Þessum tökum höfum við enn ekki náð, þótt þekkingin sé til.

Við þurfum að flýta okkur að draga saman seglin í landbúnaði í ekki minna mæli en gert hefur verið í nágrannalöndunum undanfarna áratugi – til að losa krafta og fé til verkefna, sem henta aðstæðum okkar betur. Þetta gengur of hægt.

Við þurfum að feta okkur hraðar á braut orkuöflunar og stóriðju til að fá meiri fjölbreytni, gjaldeyri, hátekjur og tækniþekkingu. Við deilum allt of mikið um gildi stóriðju.

Við þurfum að rækta upp framleiðinn iðnað, einkum þekkingariðnað, til dæmis í rafeindafræði, þar sem nýtur sín vel rekstur í smáum stíl. Einhvern tíma verðum við að þora að gerast iðnaðarþjóð. Framtíð lýðveldisins veltur á þessu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið