Ógerlegt er að sjá fyrir, hvaða flokkar munu mynda nýja ríkisstjórn að lokinni stjórnarkreppu, hugsanlega í lok janúar, en sennilega í febrúar og jafnvel síðar.
Steingrími Hermannssyni verður ekki að þeirri frómu ósk, að ný vinstri stjórn líti dagsins ljós fyrir jól, hvað þá vinstri stjórn á nákvæmlega umsömdum málefnagrundvelli.
Sú samstaða verður ekki búin til í hvelli, sem ekki náðist í rúmlega eins árs stjórnarsamstarfi. Aftursætisbílstjórarnir eru enn sama sinnis og þeir voru þá.
Framsóknarflokkurinn vill herða svokölluð Ólafslög með hinni svokölluðu norsku aðferð, sem felur í sér töluverða kjaraskerðingu. Slík lækning er ábyrgðarlitlum flokkum erfiður biti í hálsi.
Enn eru á lofti í Alþýðubandalaginu gamlar hugmyndir um, að flokkurinn þurfi að vera í stjórnarandstöðu á erfiðum tímum og safna fylgi til sóknar í næstu kosningum.
Að vísu er Þjóðviljinn farinn að fjölyrða um, hve nauðsynlegt sé að afgreiða og framkvæma frumvarp um öryggi, aðbúnað og hollustu á vinnustöðum og koma á fót opinberu vinnueftirliti.
Þessi áherzla á sérmál bendir til sveigjanleika gagnvart kjaraskerðingu. Með þessu er óbeint verið að bjóða upp á skipti á kjaraskerðingu og vinnueftirliti.
Þá gefur frestun kjararáðstefnu Alþýðusambandsins til 11. janúar Steingrími aukið svigrúm til að þrúkka um vinstri stjórn fram yfir jól og áramót.
Þessi kjararáðstefna fór út um þúfur um síðustu helgi vegna ágreinings milli fulltrúa verkamanna annars vegar og uppmælingaraðals hins vegar um verðbætur í prósentum eða krónutölum.
Alþýðuflokkurinn var svo hugulsamur að samþykkja vinstri viðræður án skilyrða. En undir niðri sýður óánægjan frá síðustu vinstri stjórn, magnaðri en nokkru sinni fyrr.
Steingrími Hermannssyni er vafalaust ljóst, að fyrsta tilraun hans til myndunar vinstri stjórnar er fyrirfram dauðadæmd. Samt verður hann að reyna til þrautar.
Hann er fyrir og eftir kosningar búinn að gefa slíkar yfirlýsingar, að hann getur ekki staðið upp frá vinstri viðræðum, nema sagt verði, að hann hafi gert sitt ítrasta.
Í næstu atrennu, sem hugsanlega gæti orðið um miðjan janúar, er ekki fráleitt, að reynt verði að koma saman minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks.
Sjónarmið þessara flokka í efnahagsmálum eru hliðstæð og fara ekki saman við sjónarmið Alþýðubandalagsins. Slík minnihlutastjórn yrði samstæðari en vinstri stjórn.
Á móti kæmu svo erfiðleikarnir við að koma málum í gegn á alþingi, ýmist með hlutleysi frá hægri eða vinstri að danskri fyrirmynd. Og ekki hafa Danir góða reynslu af slíku.
En tíminn líður og fjölgar væntanlega möguleikum. Verðlagning búvöru og fisks er í aðsigi og allir kjarasamningar eru lausir. Vandamálin eru að hvolfast yfir þjóðina.
Um síðir kemur að því, að þjóðin verður orðin svo þreytt á stjórnarkreppunni og stjórnleysinu, að hún lofar landsfeðrunum að mynda hverja þá stjórn, sem þeim hentar.
Það gæti alveg eins verið helmingaskiptastjórn, viðreisnarstjórn eða nýsköpunarstjórn eða einhver annar möguleiki, sem nú er talinn óhugsandi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið