Gaman hefði verið að sjá upplitið á fundarmönnum á laugardaginn, þegar þríflokkarnir hófu viðræður um stjórnarmyndun. Þar þuldu framsóknar- og alþýðubandalagsmenn kosningastefnuskrár sínar!
Þetta var auðvitað stórfengleg byrjun á viðræðunum. Án efa hafa allir hlustað af kristilegu umburðarlyndi á fagnaðarerindi hinna flokkanna. Og án efa hafa alþýðuflokksmenn síðar fengið tækifæri til að koma sínu að.
Eftir helgina hafa fundir haldið áfram, auðvitað án þess að neinn merkjanlegur árangur hafi náðst. Enda hafa flokkarnir þrír um ýmislegt fleira að ræða þessa daga en upplestur gamalla kosningaloforða. Þeir þurfa að semja um rekstur alþingis.
Í dag kemur alþingi svo saman, tíu dögum eftir kosningar. Við skulum vona, að þegar sé komið samkomulag milli þríflokkanna um þingforseta og formenn helztu þingnefnda. En þar með er engin ríkisstjórn komin á flot.
Næstu daga þarf svo að sinna ýmsum formsatriðum á þingi, framkvæma þá hluti, sem samkomulag hefur orðið um, ýta þinginu á flot. Ekki verður mikill tími aflögu til viðræðna um stjórnarmyndun fram að helgi.
Síðan kemur helgi og síðasta vika jólaföstunnar. Þá viku eru íslenzkir stjórnmálamenn ekki vanir að vinna. Núna neyðast þeir líklega til að víkja frá hefðinni vegna stjórnarkreppunnar. En þeir verða meðfram með hugann við jólin.
Landsfeður verða eins og aðrir menn að velja og kaupa jólagjafir, jólatré og ýmislegt annað til jólanna. Þeir geta ómögulega verið á kafi í stjórnarmyndun nema hluta úr degi, þegar jólaundirbúningur stendur sem hæst.
Stjórn verður því ekki mynduð í næstu viku. Og þá eru komin jól, síðan enn ein helgin og loks áramót. Þetta verða ekki drjúgir vinnudagar, enda líklegast, að viðræður liggi að mestu niðri síðustu átta daga mánaðarins og ársins.
Einkamálin eru efst á baugi þessa frídaga. Foringjarnir þurfa kannski eins og aðrir að kaupa flugelda og annað til áramótanna. Þeir þurfa kannski að fara í jólaboð til frændfólks og tengdafólks og að gjalda boðin í sömu mynt.
Allt tekur þetta tíma. Til nýs hversdags munu stjórnmálamennirnir ekki vakna á nýársdag, þegar Kristján Eldjárn forseti segir þjóðinni, hvort hann gefur aftur kost á sér eða ekki. Daginn eftir er svo komin mið vika.
Sennilega fara fimmtudagur og föstudagur fyrir lítið. Viðræður í alvöru um myndun vinstri stjórnar þriggja flokka munu tæpast komast á fulla ferð fyrr en í næstu viku þar á eftir, frá mánudeginum 7. janúar.
Ekki er ósennilegt, að Steingrímur Hermannsson þurfi um tvær vikur eða fram yfir miðjan mánuð til að komast formlega að því, sem allir vita nú þegar, að fyrsta tilraunin til myndunar ríkisstjórnar mun mistakast.
Ný ríkisstjórn er því ekki í uppsiglingu að sinni. Íslendingar geta því tekið lífinu með ró, meðan verðbólgan magnast og hnútar atvinnulífsins bólgna. Verðbólgan er hvort sem er haldreipi mikils fjölda manna og atvinnulífið er ýmsu vant.
Samtals má búast við, að í þetta sinn þurfi að líða um sex vikur frá kosningum og fimm vikur frá upplestri hinna flokkslegu fagnaðarerinda, unz mögulegt verður að hefja stjórnarmyndunartilraun númer tvö.
Svo er það önnur saga, hve langan tíma hver tilraun tekur eftir það. Gamanið er rétt að byrja.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið