Þegar síðari heimsstyrjöldin brauzt út, voru sendimenn óvinaríkja taldir friðhelgir. Þeim var ekki haldið sem gíslum, heldur var þeim leyft að fara úr landi. Nazistar og kommúnistar fóru eftir þessari reglu eins og aðrir.
Þegar gerðar voru upp sakir heimsstyrjaldarinnar, voru sendimenn hinna sigruðu einnig taldir friðhelgir. Haldin voru réttarhöld stríðsglæpa yfir stjórnmálamönnum, embættismönnum og herforingjum, en ekki sendimönnum.
Þessi regla stóðst öldum og árþúsundum saman. Jafnvel kaþólska kirkjan, sem stundum var í meira lagi ofstækisfull, viðurkenndi friðhelgi sendimanna. Sama er að segja um Grikki og Rómverja fornaldar.
Allan þennan tíma hefur mönnum verið ljóst eðli og gildi sendimanna. Menn hafa vitað, að skilaboð eru nauðsynleg, þrátt fyrir hatur og hagsmunastríð. Hvarvetna hafa ríkisstjórnir haldið þessu til streitu.
Stundum hefur soðið upp úr meðal almennings. Íslendingar réðust einu sinni með orgum og grjótkasti að sendiráði Breta. Engin athöfn skaðaði málstað Íslands í þorskastríðunum jafn grimmilega og sú árás.
Íslenzk stjórnvöld sendu lögreglu á vettvang til að vernda sendiráðið. Slíkt gera stjórnvöld um allan heim, þegar ofstæki almennings leitar útrásar gegn sendimönnum hataðs ríkis. Nema klerkaveldi Khomeinis í Íran.
Atburðirnir í Íran eru einsdæmi í sögu siðmenningarinnar. Þar er sendiráð tekið herskildi og starfsmönnum þess haldið sem gíslum. Og stjórnvöld landsins gera ekkert í málinu, heldur segjast skilja reiði ofbeldismanna.
Þráteflið um bandaríska sendiráðið í Teheran hefur staðið svo lengi, að ljóst er orðið, að stjórnvöld í Íran hafa ekki gert minnstu tilraun til að ná siðmenningarlegum tökum á ástandinu. Þvert á móti hafa þau reynt að hagnýta það.
Khomeini erkiklerkur er enginn geðsjúklingur. En ofbeldishneigð hans er einstök í sinni röð. Og furðuleg er sú þjóð, sem lætur stjórnast mánuðum saman af slíku ofstæki. Það er eins og Íranir séu haldnir illum anda.
Hingað til höfum við minnzt Persíu sem lands Þúsund og einnar nætur, merkasta ævintýrasafns veraldar. Við höfum minnzt Persíu sem lands Ómars Khayam, hins angurværa nautnaskálds, sem íslenzk stórskáld hafa keppzt um að þýða.
Hvað er orðið af eldfornri menningu Persíu? Það er eins og Íranir nútímans ætli að strika yfir hana, magnaðir af illum anda trúarbragðanna. Allur heimurinn fordæmir þá, svo sem þeir eiga skilið.
Carter Bandaríkjaforseti hefur staðið sig vel í þessari raun. Hann hefur ekki látið æsta landa sína ýta sér út í neina vitleysu. Hann veit líka, að máttur Bandaríkjanna er takmarkaður. En það vita sumir landar hans ekki.
Það er gott til þess að vita, að forsetastóll Bandaríkjanna er skipaður manni, sem í senn er greindur og góðviljaður og ekki hefur safnað að sér neinum hópi valdalostamanna á borð við Kissinger, fyrrum utanríkisráðherra.
Margir Bandaríkjamenn hafa talað illa um Carter og gera enn. Hann er í fyrirlitningartón kallaður hnetubóndi. Kannski gerist þar enn hið fornkveðna, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.
Og vonandi lætur Carter ekki taka sig á taugum í þessu einstæða og hörmulega Íransmáli.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið