Eintal Steingríms.

Greinar

Í stjórnarmyndunarviðræðunum sitja fulltrúar Framsóknarflokksins nánast á eintali. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn hafa ekki áhuga á þáttöku í stjórninni að þessu sinni og fara sér að engu óðslega.

Ekki vantar að Steingrímur Hermannsson rembist eins og rjúpan við staurinn. Hann hefur lagt fram kosningaloforð Framsóknarflokksins, útskýrt þau og látið reikna þau út í Þjóðhagsstofnun.

Hinir flokkarnir tveir hafa að vísu líka sett fram sín kosningaloforð, Alþýðubandalagið skriflega og Alþýðuflokkurinn munnlega. En þeir hafa að öðru leyti haldið að sér höndum í viðræðunum við Framsóknarflokkinn.

Ágreiningur Alþýðuflokks og Alþýðubandalags er hatrammari en nokkru sinni fyrr. Hjá Alþýðubandalaginu fær hann sem fyrr útrás í blóðugum skömmum í fjölmiðlum. Og hjá Alþýðuflokknum fær hann útrás í atkvæðagreiðslum á þingi.

Alþýðuflokkurinn hefur ekki viljað haga sér á alþingi eins og vinstri stjórn væri aftur komin til valda. Hann hefur farið einförum í atkvæðagreiðslum um forseta og nefndir. Og þrisvar hefur hann hlaupið út undan sér til hægri.

Lystarleysi Alþýðuflokksins er því nokkuð ljóst, enda má búast við, að honum verði kennt um, að ekki tekst að mynda vinstri stjórn í þessari umferð. Lystarleysi Alþýðubandalagsins er ekki eins augljóst, en samt engu minna.

Ef talsmenn Alþýðubandalagsins væru að stefna að vinstri stjórn, mundu þeir tempra skammirnar í garð Alþýðuflokksins, að minnsta kosti í bili. Í stað þess segja þeir nánast, að Alþýðuflokkurinn sé óalandi og óferjandi.

Að svo miklu leyti , sem málefnaágreiningur er í spilinu, er hann milli Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Hinar vonlitlu tilraunir til stjórnarmyndunar ættu að felast í hjöðnun þessa málefnaágreinings.

Stefna Framsóknarflokksins skiptir minna máli, því að hún er hvort sem er einkar sveigjanleg og gefur flokknum möguleika á að mynda meirihluta innan ríkisstjórnar með hinum flokkunum á víxl, alveg eins og í síðustu vinstri stjórn.

Það er því skrítið, að togleður Framsóknarflokksins skuli vera þungamiðja viðræðnanna. Það þýðir lítið fyrir Steingrím að vera á eintali, þegar vandamálin felast einkum í sérsjónarmiðum hinna flokkanna.

Og ekki verður sagt, að útreikningar Þjóðhagsstofnunar auki lystina á stefnu Framsóknarflokksins, nema þá hjá hörðum verðbólgusinnum. Verðbólgan á nefnilega að verða um 40% í lok næsta árs, þrátt fyrir nokkra kjaraskerðingu.

Ekki verður sagt, að markið sé hátt sett í slíkri stefnu. Hermann Jónasson hefði sett markið nokkru hærra. Og sá samanburður skiptir máli, úr því að Steingrímur telur sér í öðrum atriðum skylt að starfa að hætti Hermanns.

Ýmislegt bendir til, að Steingrímur sé farinn að átta sig á, að honum muni ekki takast að mynda stjórn í þessari umferð. Hann er farinn að tala um að skila af sér fyrir jól, í stað þess að rembast fram eftir janúar.

Erfitt er að spá um, hvernig öðrum leiðtogum muni ganga eftir áramótin. Eitt er þó ljóst. Foringjar stjórnmálaflokkanna hyggjast ekki hlíta aðvörunarorðum forseta Íslands frá síðustu viku:

“Ef til vill eru mjög langdregnar stjórnarmyndunarviðræður það, sem einna mest reynir á þolinmæði fólks og vinnur áliti alþingis mest tjón.”

En það er þó áfangi, að eintali Steingríms skuli senn lokið.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið