Kaldhæðni örlaganna.

Greinar

Kannski verður það náttúrulögmál markaðarins, sem kemur okkur til bjargar. Við verðum að hætta að ofveiða þorskinn, þegar ekki er lengur rúm fyrir hann í frystihúsunum. Sú stund er einmitt að renna upp víða um land.

Lífskjör hafa versnað að undanförnu í Bandaríkjunum. Fólk kaupir minna af fiski í matinn, enda er hann þar í landi dýrari en kjöt. Og fólk fer minna út að borða á fiskréttahúsum, sem bjóða íslenzkan freðfisk.

Hin trega sala hefur leitt til þess, að frystigeymslur íslenzku verksmiðjanna í Bandaríkjunum hafa fyllzt. Verksmiðjurnar hafa því ekki getað tekið við eins miklum fiski að heiman og reiknað hafði verið með.

Vegna hinna hægu afskipana eru frystihús um land allt óðum að verða uppiskroppa með geymslur. Þegar rúmið þrýtur, geta húsin ekki lengur tekið við fiski til frystingar. Í kjölfar þess hlýtur þorskveiði að minnka verulega.

Ótrúlegt er, að skreiðarverkun geti í sumar og haust komið í stað frystingar, þótt talið sé unnt að selja meiri skreið en framleidd er. Því veldur maðkurinn, sem herjar á skreiðarhjalla á þessum árstíma. Og saltfiskmarkaðir eru fullnýttir.

Lífskjararýrnunin í Bandaríkjunum er því í þann mund að leiða stöðnun og atvinnuleysi yfir íslenzk sjávarpláss. Útlitið er svartara en menn gera sér almennt grein fyrir.

Kaldhæðnislegt er, að ástandið væri mun betra, ef þjóð og landsfeður hefðu í fyrra farið að ráðum fiskifræðinga um að hætta að ofveiða þorskinn. Þá væru frystigeymslur nú tómar og afskipanir með eðlilegum hætti.

Ofveiðin í fyrra spillti þorskstofninum, þótt ýmsir skammsýnir menn í sjávarútvegi neiti að skilja það og tali um fullan sjó af þorski. Hrygningarstofninn, sem fyrir nokkrum árum var ein milljón tonn, er nú kominn niður í 200 þúsund tonn.

Ofveiðin í ár er sýnu alvarlegri og stefnir að bráðu hruni þorskstofnsins. Þjóð og landsfeður hafa ekkert mark tekið á tillögum fiskifræðinga um 300 þúsund tonna þorskafla. Slík veiði hefði nefnilega skert lífskjörin.

Í þess stað hefur ofveiðin stefnt í 450 þúsund tonna ársafla. Kannski 380 þúsund tonna afla, ef skrapdögum ársins yrði fjölgað um 30. Á þetta hafa þjóð og landsfeður horft, sælir í velmegun líðandi stundar.

Ef veidd hefðu verið 270 þúsund tonn í fyrra og veidd yrðu 300 þúsund tonn á þessu ári, væru lífskjör í landinu mun síðri en þau eru nú. En framtíð þorskstofnsins væri jafnframt tryggari. Og sveiflan á Bandaríkjamarkaði ekki tilfinnanleg.

Svona getur farið fyrir þjóð, sem neitar að sjá það, sem ritað er á vegginn. Við getum ekki endalaust neitað morgundeginum í velsæld líðandi stundar. Ofveiðin hlaut fyrr eða síðar að hefna sín grimmilega.

Sennilega væri vandi okkar mun meiri, ef lífskjör hefðu haldizt óbreytt í Bandaríkjunum. Þá værum við nú að veiða þorskinn í stjórnlausri blindni sem hingað til. Þá værum við endanlega að kippa fótunum undan sjálfstæðu þjóðlífi.

En svo gerist það skyndilega, að markaðsöfl í Bandaríkjunum koma okkur til bjargar, þegar til langs tíma er litið. Atvinnuleysi og skerðing lífskjara er að vísu slæmt, en samt skárra en útrýming þorsksins.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið