Harðsvíraðir þingmenn.

Greinar

Í síðasta mánuði voru laun þingmanna 731.908 krónur. Í þessum mánuði stóð svo til, að þau færu í 981.049 krónur. Hækkunin milli mánaða átti að nema tæpum 250.000 krónum hjá þessari forréttindastétt í þjóðfélaginu.

Í sama stökkinu áttu laun ráðherra að hækka um hálfa milljón króna upp í 1.958.794 krónur. Þessa launahækkun átti til dæmis fjármálaráðherrann að fá um leið og hann bauð opinberum starfsmönnum 0,37%-1,98% hækkun.

Ákvörðun um þetta var tekin með leynd í þingfararkaupsnefnd. Það er sérstök nefnd þingflokkanna, sem ákveður laun og fríðindi þingmanna. Hún hefur á síðustu árum sýnt mikið og vaxandi hugmyndaflug í hagsmunamálum.

Frægust varð nefndin árið 1978, þegar henni tókst á einu ári að hækka laun þingmanna um 75%. Það gerði hún með því að færa viðmiðunina frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja til Bandalags háskólamanna.

Það ár hækkuðu efstu flokkar Bandalags háskólamanna meira en efstu flokkar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Þennan mismun notaði þingfararkaupsnefnd og hoppaði með alþingismenn milli bandalaganna.

Þetta svindl vakti mikla hneykslun almennings. Margir þingmenn áttuðu sig á, að of langt hafði verið gengið. Fram kom tillaga um, að dómstóll skyldi ákveða kjör þingmanna, en ekki sérstök nefnd þingmanna sjálfra.

Hinir harðsvíruðu eiginhagsmunamenn í hópi þingmanna lögðust gegn þessari tillögu. Mest gekk þar fram Sverrir Hermannsson. Tókst þeim að koma í veg fyrir, að þingmenn yrðu látnir hætta að ákveða sjálfir kjör sín.

Nú hefur þingfararkaupsnefnd aftur leikið á kerfið. Hún þóttist sjá, að í viðmiðunarflokknum hjá Bandalagi háskólamanna fengju menn 20% ofan á laun fyrir ómælda yfirvinnu. Hún ákvað, að þetta skyldu þingmenn einnig fá.

Hitt er jafnframt ljóst, að þingmenn fá þegar greitt fyrir viðvik sín. Þeir taka laun fyrir að sitja í bankaráðum og stjórnum sjóða og stofnana. Þeir hafa hingað til fengið yfirvinnu sína mælda og ættu ekki líka að þurfa ómælda.

Samt sem áður áttu þingmenn að fá í þessum mánuði 163.508 króna launahækkun ofan á 85.633 króna vísitöluhækkun. Ráðherrar áttu að fá tvöfaldar þessar tölur ofan á tvöföld laun sín. Og þetta átti að gerast í kyrrþey.

Nefndin samþykkti, að nefndarmenn skyldu ekki tala um málið utan nefndarinnar. Hækkunin var ekki einu sinni borin undir þingflokkana. Þingmenn áttu að fá hana sem óvænta og þægilega sumargjöf í launaumslagi mánaðarins.

En svo komst upp um svindlið. Þingflokkaformenn Alþýðubandalags og Framsóknarflokks kröfðust þess, að hækkunin yrði afturkölluð. Og fjármálaráðherra gerði hliðstæða kröfu til forseta alþingis. Sumargjöfin verður því varla framkvæmd.

Formaður þingfararkaupsnefndar er Garðar Sigurðsson frá Alþýðubandalaginu. Aðrir nefndarmenn eru Eiður Guðnason frá Alþýðuflokknum, Stefán Valgeirsson og Þórarinn Sigurjónsson frá Framsóknarflokknum og Matthías Bjarnason, Guðmundur Karlsson og Sverrir Hermannsson frá Sjálfstæðisflokknum.

Þessir þingmenn hafa haldið á lofti því merki harðsvíraðra eiginhagsmuna, sem er allt of áberandi hjá þingmönnum landsins. Um leið hafa þeir stuðlað að kjarasprengingu og tilsvarandi verðbólgu í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið