Klúbburinn á fjöllum.

Greinar

Nú er verið að byggja gufubaðstofu og hvíldarherbergi fyrir kommissarinn við Rauðarárstíg. Stórhýsi Framkvæmdastofnunar ríkisins rís með ógnarhraða. Enda eru hér peningar nógir, ef verkefnið er nógu vitlaust.

Þegar mönnum dettur í hug að láta skattalýðinn byggja yfir sig gufubaðstofu og hvíldarherbergi, er ekki við því að búast, að þeim detti í hug að láta framhjá sér fara ýmis stílbrögð í sjálftekt á peningum fyrir þingmennsku.

Kommissarinn var auðvitað sjálfkjörinn leiðtogi í leynimakki þingmanna um 20% hækkun eigin launa. Reynsla hans er slík, að meðalspilltir þingmenn horfa á í auðmjúkri aðdáun. En hann var ekki einn ábyrgur.

Í skítverkinu stóð sjö manna nefnd þingmanna, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna. Hún fann spillingu í embættismannakerfinu og ákvað auðvitað að taka þátt í henni. Hún taldi meðalspillingu nema 20% af launum.

Hlutverk reiknimeistarans lék stjórnarformaður Olíumalar hf., sá maður, sem bezt allra hefur sannað sérkenni rekstrar í skjóli hins opinbera. Enda eru 20% til þingmanna ekki nema sandkorn í samanburði við olíumölina.

Þessum yfirsósíalistum alþingis fylgdi nefndarhjörðin einum rómi. Hún hafði líka góða reynslu af kommissarnum. Það eru ekki nema tvö ár síðan hann hækkaði laun þingmanna í einu pennastriki um 75% með einföldu bragði.

Auðvitað er billegt að leggjast á yfirsósíalistana og þingfararkaupsnefnd. Á þeim slóðum gerðist ekki neitt, sem var utan ramma siðferðis íslenzkra alþingismanna sem heildar. Allt var þetta í stíl klúbbsins.

Veigamesti þáttur málsmeðferðarinnar var kynningin á fundum þingflokkanna. Þar voru klúbbfélagar sammála um, að eitthvað dónalegt væri að ske, sem ekki bæri að fjalla um á formlegan hátt. Bezt væri að koma af fjöllum.

Enda eru nú allir sammála um að vera steinhissa. Ráðherra þess ráðuneytis, sem aðstoðaði olíumalarstjórann við útreikningana, átti þó orð til að lýsa undrun sinni. Hann sendi bænarskrá til kommissars og annarra þingforseta.

Í klúbbnum við Austurvöll er þess vandlega gætt að álykta ekki um neitt, sem gæti orðið að bobba. Þar þykja kommissarar sjálfkjörnir sem forsetar og olíumalarstjórar sem þingflokksformenn. Þar er ætíð sólskin.

Þetta er eins konar dansklúbbur, þar sem menúettinn er stiginn af snilld. Í einum hópi eru þeir sem þykjast vera á móti varnarliðinu. Í öðrum hópi eru hinir, sem þykjast vera á móti útþenslu opinbers rekstrar, einkum Framkvæmdastofnunar.

Auðvitað er þetta ekki auðvelt í upphafi. Oftast eru innan um ýmsir utangátta nýliðar, sem eiga erfitt með að skilja dansinn. Þeir ímynda sér, að þeir séu á alþingi til að marka spor í þjóðlífinu, ekki dansspor fríðindanna.

Smám saman lærist þessum nýliðum að feta sig inn í klúbbinn. Þegar þeir hætta að rugga bátnum, komast þeir í bankaráð eða sjóðsstjórn. Stærsti draumurinn er sá að enda sem kommissar í gufubaðstofu Framkvæmdastofnunar.

Sennilega ættu blöðin að hætta að nöldra út af þessu og líta fremur á björtu hliðarnar. Kannski gæti þjóðin fengið gjaldeyri fyrir útflutning á sérfræðiþekkingu í frumlegri útfyllingu reikningseyðublaða.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið