Margumtöluð áhrif skoðanakannana gætu meðal annars falizt í, að þær efldu fylgi þeirra frambjóðenda, sem hæstir eru hverju sinni. Til dæmis var haldið fram, að þær mundu draga fylgi frá Pétri til Guðlaugs í forsetakosningunum.
Engin slík sveifla kom í ljós frá birtingu skoðanakönnunar Dagblaðsins til úrslita sjálfra kosninganna. Fylgi forsetaefnanna var í kosningunum nokkurn veginn nákvæmlega hið sama og það hafði verið í skoðanakönnuninni.
Kjósendur höfðu ekki skipt um frambjóðendur til að veðja á sigurvegara. Þegar til kastanna kom, deildust meira að segja hinir óákveðnu í skoðanakönnuninni í sömu hlutföllum milli frambjóðenda og hinir ákveðnu.
Það kom í ljós, að fólk notar ekki skoðanakannanir til að hlaupa sjálft í sömu átt og þær. Fólk notar þær bara eins og hverjar aðrar fréttir, upplýsingar um stöðu mála. Kjósendur nota skoðanakannanirnar á réttan hátt.
Þar á ofan koma skoðanakannanir sem upplýsingar í veg fyrir, að óprúttnir kosningastjórar geti með verulegum sannfæringarkrafti logið til um fylgi og framgang frambjóðenda sinna. Þannig þjóna þær sannleikanum.
Í kosningabaráttunni kom ekki í ljós neitt vandamál skoðanakannana, er réttlæti sérstakar aðgerðir til takmörkunar á þeim. Þær hófust til dæmis ekki of snemma og hættu ekki of seint, þótt slíku hafi verið haldið fram.
Þeir, sem hafa gífurlega ást á boðum og bönnum, ættu fremur að hugleiða lagasetningu um starfsemi kosningastjóra, fullyrðingar slíkra út í loftið um falsanir í skoðanakönnunum, sem síðan reynast hafa verið hárnákvæmar.
Skoðanakannanir eiga að hefjast um leið og frambjóðendur koma í ljós. Þær eiga að taka púlsinn frá upphafi allt til síðustu daga kosningabaráttunnar. Þannig eiga þær stöðugt að veita kjósendum upplýsingar um stöðu og strauma.
Ekki kom heldur í ljós nein bilun í aðferðafræði skoðanakannananna. Skekkjan hjá Vísi reyndist vera 2,3 prósentustig, sem er góður árangur. Hjá Dagblaðinu reyndist hún vera tæp 0,4 prósentustig, sem er aldeilis frábær árangur.
Lektorar við félagsfræðideild háðskólans hafa æst upp hjá kosningastjórum broslegar fullyrðingar um gallaða aðferðafræði. Svo bæta þeir um betur og þakka árangurinn svonefndu “glópaláni”. Slík vísindi eru vissulega í stíl.
Dagblaðið hefur frá upphafi beitt sömu árangursríku aðferðafræðinni. Hún hefur í fjórum kosningum í röð staðizt dóm reynslunnar. Gaman væri, ef lektorar gætu reiknað út hinar tölfræðilegu líkur á fjórföldu glópaláni. Þær eru aðeins 6%.
Hin umdeilda aðferð Dagblaðsins hefur fjórum sinnum í röð reynzt rétt. Hún hefur fjórum sinnum í röð reynzt betur en aðferðir Vísis. Og reynslan er óneitanlega skarpari dómari en lektorar með takmarkaðan skilning á stærðfræði.
Hið opinbera þarf því ekki að koma á fót neinu eftirliti með aðferðafræði skoðanakannana. Allra sízt væri við hæfi að fela lektorum félagsfræðideildar slíkt aðhald eða veita þeim forgang að framkvæmd slíkra kannana.
Meðan skekkjan í skoðanakönnunum er reglubundið innan við þrjú prósentustig, mega málin teljast í mjög góðum höndum. Og þegar skekkjan kemst niður fyrir 0,4 prósentustig, eins og hjá Dagblaðinu, getur sjálfur George Gallup tekið ofan.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið