Hálfgildings hugljómun

Greinar

Skyndileg kúvending ríkisstjórnarinnar úr kvótakerfi landbúnaðar i fóðurbætisskatt felur í sér hugljómun, sem vonandi verður fordæmi víðtækari aðgerða, ekki aðeins í landbúnaði, heldur á ýmsum öðrum sviðum offramleiðslu.

Kvótakerfið var eins konar rýtingur í bak bænda. Áratugum saman höfðu þeir verið hvattir til sem mestrar framleiðslu. Til þess var beitt miklu kerfi styrkja og lána, samhliða sjálfvirkum niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum.

Að vísu var þetta offramleiðslukerfi byggt upp að kröfu samtaka landbúnaðarins. Eigi að síður er ósiðlegt að neita skyndilega að borga nema smámuni fyrir hluta af framleiðslu bænda, þegar greiðslugeta ríkissjóðs þverr.

Ríkisvaldið ber ábyrgð á offramleiðslukerfi landbúnaðarins. Allir stjórnmálaflökkar hafa staðið að vexti þess og viðgangi. Þess vegna bera þessir aðilar töluverða ábyrgð á, hvernig komið er fyrir bændum um þessar mundir.

Sumir bændur, bæði frumbýlingar og aðrir, hafa staðiö í miklum framkvæmdum í skjóli styrkja- og lánakerfisins. Ef kvótakerfi kemur síðan og minnkar framleiðslu þeirra og tekjur, er hætt við, að þeir hengist í vöxtum og afborgunum.

Auðvitað er þjóðinni lífsnauðsyn að draga sem mest úr landbúnaði og miklu meira en nokkrum stjórnmálaflokkí hefur enn dottið í hug. En það má ekki gera það með tilfinningasljóum aðferðum, sem valda persónulegum harmleikjum.

Kvótakerfið fór aftan að hlutunum. Með því var byrjað á endanum. Hinn nýi fóðurbætisskattur er hins vegar ein af mörgum leiðum, þar sem byrjað er á byrjuninni, komið framan að hlutunum. Því ber að fagna sinnaskiptunum.

Fóðurbætisskatttuinn er spor í rétta átt, þótt hann varði eingöngu mjólkurvöru. Hann veldur því, að hændur hugsa sig um tvisvar fyrr en þeir mundu hafa gert í kvótakerfi. Þeir reisa sér síður hurðarás um öxl. Samt verður hann framkvæmdabændum þungur í skauti.

Enn betra hefði verið að leita alveg til upphafsins, hinnar óhóflegu fjárfestingar í landbúnaði. Það, sem raunverulega á að skera niður, er hið fullkomlega sjálfvirka kerfi styrkja og lána til framkvæmda.

Hugljómun ríkisstjórnarinnar náði aðeins til fóðurbætisskattsins, enda er auðvelt að skilja hann og fylgja hugsuninni á leiðarenda. Hann hefur snögg áhrif og aflar fimm milljarða króna í útflutningsuppbætur.

Niðurskurður styrkja og lána til framkvæmda í landbúnaði er hins vegar aðferð, sem er hægfara i fyrstu. Til langs tíma er það þó mun öflugra tæki gegn offramleiððslunni. Og sú leið frelsar ekki síður milljarða.

Sterklega kæmi til greina að beita í senn fóðurbætisskatti og niðurskurði styrkja og lána. Með því mætti spara nægilegt fé til að gera leifar kvótakerfisins alveg óþarfar. Sú leið er í senn mannleg og hagkvæm.

Auðvitað er ekki hægt að ætlast til, að stjórnmálamenn sjái allt ljósið í einu, enda hefur því aðeins verið haldið á lofti í áratug. Og þeir virðast hafa hug á að klúðra málinu, t.d. með því að láta skattinn leiða til hækkunar verðs á eggjum, svínakjöti og kjúklingum.

Og svo væri einkar gott fyrir þjóðina, ef eitthvað af þessari hugljómun skini inn til hinna, sem ráða sjávarútvegi og eru sannfærðir um, að sem flóknast kvótakerfi sé skárra en sala veiðileyfa.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið