Reykvíkingar líta borgarstjórn sína ekki eins mildum augum og þeir líta ríkisstjórnina. Af þeim, sem afstöðu tóku í síðustu skoðanakönnun Dagblaðsins, voru 53% andvígir borgarstjórnarmeirihlutanum og 47% fylgjandi honum.
Þetta bendir til, að Sjálfstæðisflokkurinn geti gert sér nokkrar vonir um að endurheimta meirihluta sinn í Reykjavík, þegar kosið verður næsta ár að vori.
Það styrkir niðurstöðuna, að einungis rúmt 1% hinna spurðu vildi ekki svara spurningunni um afstöðuna til borgarstjórnarmeirihlutans. Það sýnir, hversu lítillar skekkju er að vænta í slíkum skoðanakönnunum.
Af hinum 29%, sem ekki gátu gert upp hug sinn, eru náttúrlega margir, sem ekki munu greiða atkvæði, þegar til kastanna kemur. Í Reykjavík eins og annars staðar á landinu eru það um 10%, sem ekki greiða atkvæði.
Hinir í hópnum þurfa að raðast töluvert ójafnt milli hinna stríðandi fylkinga til að snúa við útkomu skoðanakönnunarinnar. Annað eins hefur svo sem gerzt, en óneitanlega hefur borgarstjórnarmeirihlutinn á brattann að sækja.
Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar var því almennt trúað, að sjálfstæðismenn gætu ekki endurheimt meirihlutann, ef þeir misstu hann á annað borð. Skoðanakönnunin bendir til, að þessi trúarsetning sé annmörkum háð.
Samt hefur núverandi meirihluti sýnt fram á, að stjórn hans jafngildir ekki borgarhruni. Hann hefur hrakið kenninguna um, að Sjálfstæðisflokkurinn einn geti stjórnað borginni. Og hann hefur hrakið glundroðakenninguna.
Ekki verður séð, að nein umtalsverð breyting hafi orðið við stjórnarskiptin í Reykjavík. Eina sjáanlega breytingin er, að snjór er betur en áður hreinsaður af gangstéttum borgarinnar, líklega fyrir áhrif umhverfissinna.
Hugsanlegt er, að kjósendur í Reykjavík fælist hinn augljósa vesaldóm meirihlutans í skipulagsmálum, er horfið hefur verið frá Úlfarsfellsbyggð og í þess stað reynt að troða húsum inn á ýmsar auðar skákir í borginni.
Alténd er það merkilegt rannsóknarefni, að borgarstjórnarmeirihlutinn skuli vera kominn í minnihluta meðal kjósenda eftir tiltölulega friðsama 30 mánaða setu. Skýringar liggja engan veginn í augum uppi.
Sérstaklega er athyglisvert, að svörin koma fram í sömu skoðanakönnun og þeirri, sem leiddi í ljós feiknarlegar vinsældir ríkisstjórnarinnar. Eru þó framsóknar- og alþýðubandalagsmenn í meirihluta meðal ráðamanna á báðum stöðum.
Eðlilegt hefði verið að spá, að afstaða fólks til landsmála mundi endurspeglast að meira eða minni leyti í afstöðu þess til borgarmála. En þvert á móti sýnir niðurstaðan, að kjósendur gera skarpan greinarmun á þessu tvennu.
Munurinn er auðvitað sá, að ekki er í borgarmálum sjáanlegur hinn mikli klofningur Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Sjálfstæðismenn eru í stórum dráttum sameinaðir í horgarmálum, þótt þeir séu klofnir í landsmálum.
Um leið nýtur borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna þess, að klofningurinn á landsvísu hefur gert flokkinn svo breiðan, að í honum eru vistarverur fyrir fólk með gerólíkar skoðanir og lífsviðhorf.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið