Stjórnmálaflokkarnir fjórir hafa formlega beðið borgarráð Reykjavíkur að fella niður öll gjöld, sem þeir greiða borginni af fasteignum, er þeir eiga og nota undir skrifstofur og félagsstarf. Óskinni fylgir langur harmagrátur.
Ein forsenda beiðnarinnar er, að flokkarnir séu í miklum peningavandræðum. Sama gildir áreiðanlega um fjölda fjölskyldna og fyrirtækja í Reykjavík. Stjórnmálaflokkarnir eru ekki einir á báti í féleysinu. Þeir eru bara frekastir.
Önnur forsenda er, að stjórnmálaflokkarnir fái ekki styrki hjá ríkinu. Ekki er þó ljóst, hvernig borgin hafi skyldum að gegna á sviði, sem ætti fremur að vera ríkisins, ef það á þá að vera á sviði einhvers opinbers aðila.
Þar að auki er ósatt, að ríkið styðji ekki flokkana fjárhagslega. Á fjárlögum þessa árs er 76 milljónum gamalkróna veitt til þingflokka og 170 milljónum gamalkróna til dagblaða og annarra sorprita stjórnmálaflokkanna.
Þriðja forsendan er, að fasteignir flokkanna eigi ekki að vera “verulegir” skattstofnar sveitarfélaga. Þessari hugsun gleymdu flokkarnir hins vegar, þegar þeir gerðu gjöld af fasteignum að verulegri byrði fólks og fyrirtækja.
Fjórða forsendan er, að flokksstarf stuðli að almannaheill. Ef það er rétt, hlýtur að vera hægt að segja slíkt hið sama um rekstur heimila og fyrirtækja. En augljóst er, að í frekjunni kunna flokkarnir vel að nýta hálmstráin.
Fimmta forsendan er, að stjórnmálaflokkarnir séu þegar búnir að ná samkomulagi um undanbrögð af þessu tagi í Kópavogi og Akranesi. Þannig er fyrst komið á fót spillingu í smáum stíl til að afsaka hina meiri, sem fylgir í kjölfarið.
Sjötta og markverðasta forsendan er, að félagsheimili af hvers kyns tagi séu samkvæmt lögum undanþegin fasteignaskatti. En auðvitað væri eðlilegra, að flokkarnir fengju þingmenn sína til að gefa sér rúm í lögum um félagsheimili.
Þar að auki nær undanþága félagsheimila hvorki til skrifstofuhúsnæðis né til annarra gjalda af fasteignum en fasteignaskatts. Flokkarnir eru frekari og biðja um undanþágu fyrir skrifstofur og frá öllum gjöldum á fasteignum.
Fróðlegt verður að fylgjast með, hvernig fulltrúar flokkanna í borgarráði munu taka þessari frumlegu og hugmyndaríku fégræðgi flokkanna. Um leið verður að teljast miður, að hugarflug ramakveinsins skuli ekki nýtast til almannaheilla.
Flokksböl valdsins.
Á síðustu árum hefur dregið úr hinni pólitísku valdshyggju, sem lýsir sér í misbeitingu ráðherravalds við ráðningu í opinber embætti. Nú á dögum er farið mun varlegar og reynt að gæta eins konar hófs í spillingunni.
Komið hefur í ljós, að ráðherrar Alþýðubandalagsins eiga einna erfiðast með að lagast að hinum nýju aðstæðum. Einkum lenti Ragnar Arnalds sem menntamálaráðherra í endurteknu uppistandi út af mannaráðningum.
Nú hefur Svavar Gestsson vegið í sama knérunn og notað áskorun 20 Dalvíkinga af 3000 til að ganga fram hjá þeim umsækjanda um apótekið á staðnum, sem úrskurðaður hafði verið hæfastur.
Ekki er vitað, hvort ástæðan er flokkslæg valdshyggja eða flokkslæg karlremba.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið