Myndsnældumenn og hið opinbera starfa saman á Grænlandi. Grænlenzka sjónvarpið lætur klúbba áhugamanna sjá um að dreifa efni þess á bezta útsendingartíma og leyfir þeim á móti að nota annan tíma fyrir sig sjálfa.
Sigurður Oddgeirsson, kennari í Kulusuk, lýsti þessu í Dagblaðinu fyrir nokkrum dögum. Í öllum helztu bæjum Grænlands hefur verið komið á fót kapalsjónvarpi, reknu af frjálsum klúbbum, sem ekki starfa í ágóðaskyni.
Sjónvarpsmál Kulusuk eru komin svo langt fram úr Íslandi, að þar er stundum sent á þremur rásum samtímis. Þar er flutt efni úr sjónvarpsdagskrám margra landa auk kvikmynda og annars efnis af myndsnældum.
Fyllilega er orðið tímabært, að íslenzk stjórnvöld og sjónvarpið átti sig á þróun tækninnar og reyni að notfæra sér hana í stað þess að standa eins og álfar út úr hól, bannandi þetta og setjandi einkarétt á hitt.
Yfirvöld þurfa að sleppa krampakenndu taki sínu á einkarétti og hliðvörzlu. Þau þurfa að átta sig á, að almenningur hefur nú náð tökum á leiðum til að sjá í sjónvarpi hvaða efni, sem honum þóknast að sjá.
Úrelt er orðin hugsun finnsku bókavarðanna, sem ákváðu að taka Andrés önd úr söfnunum, svo að hann spillti ekki börnunum. Úrelt er orðið að góðviljaðir menningarvitar ákveði, hvað við fáum að sjá í sjónvarpi.
Úrelt er orðið, að menningarlegir velferðarmenn eigi að sitja og skammta til okkar efni frá hugsanlegum Nordsat-sjónvarpshnetti, svo að við fáum ekki of mikið af enskum reyfurum og nógu mikið af norrænum vandamálum.
Tæknin er að fara í kringum þessa elskulegu hliðvörzlu mannanna, sem vilja einokun til að geta gert á okkur góðverk. Eftir nokkur ár fara að koma á loft aðrir sjónvarpshnettir, sem við getum náð beint í tækin okkar.
Og myndsnældurnar hafa þegar veitt forskot á sæluna. Í flestum fjölbýlishúsum hefur verið tekið upp samstarf um sýningar. Og einbýlishúsafólk vill óðfúst leggja kapla milli húsa. Yfirvöld geta streitzt við, en hljóta að gefast upp.
Einokun sjónvarpsins er brostin. Stjórnvöld eiga að viðurkenna þetta og breyta lögum um einkarétt Ríkisútvarpsins og Pósts og síma. Fólk fær sér innanhússkerfi og kapla, hvort sem er. Það horfir á hvaða efni, sem það vill.
Í stað þess að streitast við, eiga stjórnvöld að beina kröftum sínum að því að skapa hinni nýju tækni heilbrigðan ramma og gæta þess, að nauðsynlegustu lög séu haldin, en önnur séu felld niður til einföldunar.
Gæta þarf höfundarréttar af myndsnældum eins og af öðru efni. Finna þarf einfalt greiðslukerfi, sem fullnægir brýnustu þörfum höfunda og framleiðenda og hindrar á virkan hátt það sjórán, sem nú er stundað í sumri snælduleigu.
Einnig þurfa stjórnvöld menntamála að reyna að finna leiðir til að fá myndsnælduefni textað til verndar íslenzkri tungu. Ekki er þó víst, að slíkar leiðir séu færar, þegar gervihnattasjónvarpið er komið hingað.
Grænlendingar hafa gert okkur skömm til og einnig vísað okkur veginn. Þeir hafa notfært sér tæknina, enda hafa þeir skilið, að framhjá henni verður ekki gengið. Nú er komið að okkar yfirvöldum að skilja líka.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið