Sundraðir falla þeir.

Greinar

Kjarakröfur Alþýðusambands Vestfjarða koma ekki á óvart. Þær eru ekki yfirgengilegar, svo sem stundum vill verða, þegar menn eru að sýnast. Krafizt er hækkunar fiskvinnu í launaflokkum og endurheimtar kaupmáttar sólstöðusamninga.

Eðlilegt er, að í kjarasamningum sé í sviðsljósinu sjálfur kaupmátturinn og breytingar hans í hlutfalli við breytingar þjóðartekna á mann. Krafa um ákveðinn kaupmátt er miklu sanngjarnari en krafa um ákveðnar prósentur eða krónur.

Hins vegar geta menn deilt um, hvort hlutföll kaupmáttar og þjóðartekna á mann hafi verið hæfileg einmitt eftir sólstöðusamningana 1977, frekar en á einhverju öðru tímabili. Um slíkt þarf auðvitað að semja.

Einnig er hægt að halda fram, að rökréttara sé að miða við breytingar kaupmáttar og þjóðartekna á mann á því samningstímabili, sem er að ljúka. Með því væri reiknað með, að hlutföllin hafi verið eðlileg eftir síðustu samninga.

Hin aðalkrafan, um fiskvinnuna, er vestfirzk. Hún sýnir sérstöðu Vestfirðinga í kjarasamningum og er án efa veigamikil forsenda ákvörðunar alþýðusambands þeirra um að hafa ekki samflot með Alþýðusambandi Íslands að þessu sinni.

Ekki er nýtt, að menn telji sér hag í að semja sér. Stundum hafa þeir í bili náð meiru með þeim hætti. En oftast endar sérstaðan með því, að enginn þorir að semja fyrstur og allir vilja semja síðastir til að ná örlitlu meira.

Feiknarlegt afl launamannasamtakanna sem þrýstihóps á undanförnum árum hefur að töluverðu leyti byggzt á, að þau hafa sameinað það í Alþýðusambandi Íslands, sem lengi bar höfuð og herðar yfir veikt Vinnuveitendasamband Íslands.

Stutt er síðan atvinnurekendur lærðu þessa lexíu og fóru að standa saman í Vinnuveitendasambandi Íslands. Þeir gerðu það sem þrýstihóp að eins konar jafnoka alþýðusambandsins og náðu svipuðum slagkrafti, til dæmis með verkbönnum.

Skiljanlegt er, að þeir, sem urðu fyrri til að ná samstöðu, verði líka fyrri til að gleyma kostum hennar. Þess vegna hugleiða nú ýmis fleiri félög og félagasamtök launafólks að hafa ekki samflot með alþýðusambandinu.

Gallinn við þessa stefnu er, að hún tekur ekki tillit til, að viðsemjandinn er ekki búinn að gleyma hinni nýlærðu lexíu. Vestfirzkir og aðrir atvinnurekendur hyggjast standa fast saman í Vinnuveitendasambandi Íslands.

Þótt alþýðusambandið verði ekki lengur hornsteinn næstu kjarasamninga, þá ætlar vinnuveitendasambandið sér að verða það. Meira að segja á það að semja fyrir Meistarasamband byggingamanna, þótt það standi fyrir utan.

Alþýðusamband Vestfjarða og einstök félög þess komast því ekki hjá að semja beint við samstætt og öflugt Vinnuveitendasamband Íslands, sem hefur ýmis ráð til að láta koma krók á móti bragði, þar á meðal tafir eða verkbönn.

Þjóðin hafði hag og öryggi af valdajafnvægi hinna öflugu aðila vinnumarkaðsins, svona eins og heimsbyggðin naut valdajafnvægis risaveldanna. Veiking alþýðusambandsins truflar þetta jafnvægi og veldur ýmiss konar óvissu.

Menn freistast til sérstöðu, af því að þeir hafa dæmi um árangur hennar. Hin dæmin eru þó enn fleiri um, að sameinaðir standa menn og sundraðir falla þeir. Þá gömlu lexíu virðast margir þurfa að læra á nýjan leik eftir langt hlé.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið