Lifi skorpuvinnan.

Greinar

Sennilega er skorpuvinna sú vinna, sem manninum er eðlilegust. Hún er upprunnin í veiðimannaþjóðfélaginu, sem hamingjusamlega stendur enn í blóma hér á landi, þótt aðrar þjóðir hafi lagzt í akuryrkju og færibandavinnu.

Skorpuvinna kemur fram í ýmsum myndum. Ein hin þekktasta er róðurinn, sem getur verið stuttur eða langur eftir atvikum. Á handfærum er róðurinn ekki heill dagur, en á skuttogurunum getur hann verið meira en vika.

Algengast er, að þessar skorpur komi margar saman í röð og heita þá vertíð. Það er eðlilegur þáttur skorpuvinnunnar, að menn leggjast í leti og værukæru að henni lokinni. Þessi hvíld getur tekið daga, vikur og jafnvel mánuði.

Með aukinni tækni hafa vertíðirnar lengzt. Menn hafa bætt sér það upp með því að skipta liði og sleppa úr róðrum. Dæmi eru jafnvel um, að tveir skipstjórar skiptist á um að stjórna einu og sama fiskiskipinu.

Þessar skorpur á hafinu endurspeglast uppi á landi. Fiskibræðslur fara í gang, þegar loðnuvertíðin byrjar. Þá vinna menn alla daga vikunnar í nokkra mánuði. Síðan stöðvast bræðslurnar og allt verður hljótt.

Hvalvertíðin hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Þar hafa nú sem fyrr verið unnir langir vinnudagar í frídagalausum vinnuvikum. Menn hafa keppzt um að nýta vertíðina sem bezt, meðan hún stendur.

Þegar vertíðin er búin, fá menn sér verðskuldaða hvíld, langa eða skamma eftir atvikum. Skólanemar, sem hafa mokað upp peningum á vertíðinni, hvíla sig frá líkamlegri vinnu með því að setjast við skrifborð vetrarins.

Frístundir innan vertíðar hafa verið frjálslegar í hvalvinnslunni. Menn hafa yfirleitt getað fengið frí, hvenær sem er, með tveggja daga fyrirvara. Og menn hafa getað safnað frídögum til að komast heim til ættingja.

En nú er farið að þrengja að veiðimennskunni hér á landi. Sett hafa verið lög um vinnuvernd, samin af félagslegum sérfræðingum og ráðgjöfum, sem halda, að seta við skrifborð fimm daga í viku frá níu til fimm sé hin náttúrulega iðja.

Raunar er vinna fimm daga í viku frá níu til fimm tiltölulega nýtt fyrirbæri, sem sumum líkar vel, en öðrum miður. Mannkynið er þó svo sveigjanlegt, að flestir geta vanizt fyrirbærinu, þótt skorpuvinna sé bæði eðlilegri og skemmtilegri.

Ekki skal nýjungin löstuð, enda fellur hún vel að flestum atvinnuháttum nútíma þjóðfélags, einkum skrifstofustörfum, sem eru orðin fjölmennasta atvinnugreinin. En þar með er ekki nauðsynlegt að þröngva henni upp á alla.

Að baki vinnuverndinni liggur velferðarhugsunin um, að ákveðin frí séu nauðsynleg. Þeir, sem ekki hafi vit fyrir sér á þessu sviði, skuli neyddir til að taka sér frí samkvæmt skrifborðskerfum úr reykvískum stofnunum.

Flestir geta verið sammála um, að vökulögin hafi verið nauðsynleg á sínum tíma, enda komu þau í veg fyrir þrælahald. En nú er öldin önnur og miklu minni hætta á, að skorpuvinna leiðist út í sífellda, hvíldarlausa vinnu.

Þegar vinnuverndarlög eru notuð til að rýra tekjur hvalvinnslumanna um 15% og hindra þá í að taka lengri frí og á þeim tímum, sem hentar þeim, – þá er velferðarhugsun félagsráðgjafanna og alþingismannanna komin út í öfgar.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið