Sjö vildu leggja Reykjavíkurflugvöll niður og fimm vildu halda honum. Þetta var niðurstaða tólf manna kviðdóms, skipaðs af handakófi úr þjóðskrá, á dómþingi Lífs og lands í sumar, þegar leidd höfðu verið fram vitni með og móti.
Niðurstaðan sýnir, að flytja má sterk rök bæði með og móti Reykjavíkurflugvelli, en á hvorugan veginn algerlega sannfærandi. Flugvöllurinn hefur lengi verið umdeildur og verður það áfram. En hann verður notaður lengi enn.
Núverandi skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa augastað á flugvallarsvæðinu, bæði til að víkka gamla miðbæinn og til að fresta frekari útþenslu borgarinnar austur fyrir Elliðaár. Þau telja svæðið of verðmætt fyrir flugvöll.
Þau hafa látið reikna út, að önnur notkun flugvallarsvæðisins mundi stytta samgönguleiðir í borginni. Sá, sem byggi þar, í stað þess að búa við Korpúlfsstaði, mundi spara 3.000 nýkrónur í bensíni á ári hverju.
Ennfremur er bent á, að völlurinn sé ekki eins miðsvæðis og áður var. Þegar nýja Reykjanesbrautin sé komin, eigi Breiðhyltingar aðeins hálftíma leið til Keflavíkurflugvallar og alténd 20 mínútna leið til Reykjavíkurflugvallar.
Loks telja margir völlinn hættulegan. Hávaðinn valdi hækkuðum blóðþrýstingi og ýmsum öðrum óþægindum. Mikil slysahætta fylgi aðflugi og flugtaki yfir þéttbýli. Flugbrautirnar séu of stuttar og ekki nógu traustbyggðar.
Hinir telja völlinn þvert á móti öruggan. Hann sé í samræmi við alþjóðlega flugstaðla. Allt sé hið ákjósanlegasta, öryggismál, staðsetning, veðurfar og aðstæður aðflugs og flugtaks. Völlurinn sé til fyrirmyndar.
Þeir segja líka, að afnám næturflugs og tilkoma hljóðlátari flugvéla hafi dregið svo úr hávaða, að kvartanir berist ekki lengur. Enda sé hávaðinn frá flugvellinum mun minna vandamál en hávaðinn frá bílaumferðinni.
Þeir benda ennfremur á, að allar flugleiðir innanlands mundu lengjast, ef Keflavíkurflugvöllur tæki við. Því mundi fylgja mikil orkusóun og sóun á tíma flugfarþega, bæði í lofti og á leið til vallar og frá honum.
Einnig leggja þeir áherzlu á hagsmuni dreifbýlisins. Völlurinn er við hlið kvosarinnar, sem hefur að geyma alþingi og dómstóla, ráðuneyti og banka, stofnanir og samtök, sem fólk utan af landi á erindi við.
Til eru strjálbýlismenn, sem beinlínis halda því fram, að lega flugvallarins auðveldi þeim að skreppa til Reykjavíkur, að taka þátt í stjórn stofnana og samtaka, að hafa áhrif á ákvarðanir, að gæta hagsmuna landsbyggðarinnar.
Loks telja flugvallarsinnar, að of dýrt sé að byggja nýjan flugvöll og að ekki sé völ á hentugu flugvallarstæði á Reykjavíkursvæðinu, síðan hætt var við að taka Álftanes frá. Aðstæður í Kapelluhrauni séu mun óhagstæðari.
Niðurstaðan af öllu þessu er sú, að andstæðingum Reykjavíkurflugvallar hefur ekki tekizt að yfirbuga stuðningsmenn hans. Og borgaryfirvöld eru að þessu sinni að hætta við að taka afstöðu til framtíðar flugvallarins.
Úr því að völlurinn verður notaður næsta áratuginn og sennilega miklu lengur, er orðið tímabært að spara landslýð krókinn suður í Skerjafjörð og reisa sómasamlega flugstöð nær gamla bænum, til dæmis í nágrenni Umferðarmiðstöðvarinnar.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið