“Ég er alveg ákveðin í að borða aldrei fisk frá Íslandi. Ég ætla aldrei að kaupa fisk, sem merktur er Íslandi. Þetta sagði áströlsk stúlka, sem verið hefur hér fimm mánuði í fiskvinnu, í viðtali við Dagblaðið á laugardaginn.
Nýsjálenzk vinkona hennar, sem verið hefur í fiskvinnu á sama stað í níu mánuði, sendi Dagblaðinu bréf með ófögrum lýsingum á, hvernig úldinn fiskur er frystur til útflutnings í stórum stíl. Í bréfinu segir meðal annars:
“Bónuskerfið ýtir undir hraða vinnu og slíkt kemur niður á gæðum afurðanna. Blóð, bein, ormar og ýlda fylgja hreinsuðum fiski á pökkunarborðin og þaðan á heimsmarkað.
Þyngdin er mikilvægur þáttur fyrir þann, sem snyrtir, þegar bónus dagsins er metinn. Ef of mikið af skemmdum hlutum og blóði er fjarlægt af fisknum, er þeim, sem snyrtir, refsað fyrir heiðarleikann með lægri vigt, sem þýðir ófullnægjandi bónus.”
Hin ástralska útskýrði þetta nánar í viðtalinu: “Þeir, sem snyrta, fá 20 kg kassa með hráefni í. Það, sem búið er að snyrta, er sett í annan kassa. Sá kassi er vigtaður og mismunurinn á þyngd hans og hins fyrri virkar sem frádráttur á launin. Það þýðir, að því meira, sem hreinsað er frá, því meira minnka launin.
Þetta veldur því, að starfsmenn planta undir í kassann. Það er, að lélegu hráefni er plantað neðst í kassann til að hann vegi meira. Svo sleppur það framhjá eftirlitsmönnum, sem sjaldnast gá neðst í kassann …”
Í bréfi hinnar nýsjálenzku segir einnig: “Verkafólkið hraktist næstum því út úr fiskiðjunni vegna stingandi lyktar af rotnandi þorski. Allur sá þorskur var settur á markað erlendis. Ég kalla þetta ósiðlegt.”
Hin ástralska bætti við: “Úldinn og slímugur fiskur fór í gegn þann tíma. Það var hreint ótrúlegt, hvað þetta var ógeðslegt. Það var hægt að stinga fingrunum í gegnum fiskinn. . . Allur þessi fiskur fór í frystingu og allt gekk sinn vanagang.”
Þessar tvær útlendu konur hafa engra hagsmuna að gæta. önnur er farin og hin er á förum. Þær voru sammála um, að segja þyrfti íslenzkum almenningi frá atburðum, sem áreiðanlega verða til að spilla fyrir markaði íslenzks fisks.
Yfirmenn Kaupfélagsins munu vafalaust segja þetta allt tóma lygi, enda hafa þeir hagsmuna að gæta. En samt er málið svo alvarlegt, að sölusamtök frystiiðnaðarins þurfa að láta það snarlega til sín taka.
Auðvitað er hætta á, að bónuskerfi, sem miðar að aukinni nýtingu hráefnis, leiði til lélegri vöru. Og auðvitað verða sölusamtökin, sem bónuskerfið semja og sem bera ábyrgðina gagnvart markaðnum, að meta, hversu langt má ganga í nýtingarbónus.
Engin ytri merki eru um, að meðferð fisks í frystihúsum sé í ólagi. Íslenzkur freðfiskur er í háu verði í Bandaríkjunum og selst vel. En ekki mega verða mörg slys til að koma skyndilegu óorði á fiskinn.
Einstaka fiskiðjur geta reynt að sleppa fyrir horn með óframbærilega vöru. Yfirmenn þeirra fá kvartanir til baka löngu síðar og taka þær ef til vill ekki nógu alvarlega.
Þetta er því miður ekkert einkamál þessara fiskiðja. Öll þjóðin stendur og fellur með fiskinum, sem fer á erlendan markað. Og hún ætlast til, að sölusamtökin, í þessu tilviki Sjávarafurðadeild SÍS, sjái um, að þetta sé í lagi.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið