Pétur er biskupsefnið.

Greinar

“Þjóðin lítur upp til og ber virðingu fyrir herra Sigurbirni Einarssyni vegna verðleika hans. Það verður engum manni létt verk að taka við embætti af honum. Ef starfssystkini mín og leikmenn í kirkjunni hafa hug á að velja mig næsta biskup, þá mun ég með Guðs hjálp gera mitt bezta eins og hingað til.”

Þetta sagði Pétur Sigurgeirsson vígslubiskup í viðtali við Dagblaðið, áður en talning leiddi í ljós, að hann hafði verið kjörinn biskup yfir Íslandi, kristilegur leiðtogi þjóðarinnar á næsta skeiði kirkjunnar í landinu.

Séra Pétur er vel að biskupskjörinu kominn. Hann hefur reynzt maður sátta og samlyndis og hefur haft gott lag á samstarfi við aðra, líka þá, sem eru honum ekki sammála. Dagblaðið óskar honum til hamingju með kosninguna.

Ólafur Skúlason dómprófastur stóð sig einnig vel í kjörinu, því að ekki getur munað minna en einu atkvæði. Og það var hið eina, sem skildi að þessa tvo ágætu kirkjunnar menn, þegar upp var staðið frá talningu í gær.

Í biskupskjöri tókust þó ekki á neinar andstæðar fylkingar kirkjulegrar stefnu. Báðir kennimennirnir eru taldir frjálslyndir menn í miðjum straumi kirkjulegra skoðana, lausir við öfga og einstrengingshátt.

Hin tæpa kosning mun því tæpast valda neinni úlfúð eða neinum klofningi meðal kirkjunnar manna, lærðra og leikra. Hér var bara um tvo menn að raða, sem nutu víðtæks trausts, án þess að öðruvísi flokkadrættir lægju að baki.

Séra Pétur hefur alla ævi hrærzt í guðfræði, enda er hann sonur Sigurgeirs Sigurðssonar biskups. “Einhvern veginn var það svo, að aldrei kom annað framhaldsnám til greina hjá mér en guðfræðin …” sagði hann nýlega í viðtali við Dagblaðið.

Eftir guðfræðinám við Háskóla Íslands og prestsvígslu hélt séra Pétur vestur um haf til framhaldsnáms við prestaskóla í Philadelphia og Stanford-háskólann í Kaliforníu. Eftir heimkomu var hann fyrst blaðamaður við Kirkjuritið, en vígðist síðan til Akureyrar, þar sem hann hefur æ síðan verið prestur, í 34 ár.

Í framangreindu viðtali við Dagblaðið lýsti séra Pétur ýmsum skoðunum sínum á umdeildum þáttum kristni og kirkjuhalds. Eins og margir starfsbræður hans er hann andvígur prestskosningum, nema 25% atkvæðisbærra sóknarbarna óski eftir því.

Hann sá ýmsa góða kosti við fríkirkjukerfið, þegar hann var vestra, en telur jafnframt, að þjóðkirkjukerfið á Íslandi hafi reynzt vel á löngum tíma. Hann er ekki viss um, að annað kerfi henti okkur betur.

Hann telur, að kirkjunnar menn gefi sig óhjákvæmilega að þjóðmálum. Hann er hlynntur því, að konur gegni prestsembætti. Hann er andvígur fóstureyðingum af félagslegum ástæðum.

Hann telur, að spíritismi geti ekki komið í staðinn fyrir kristindóm, en vill ekki rengja það fólk, sem segist komast í samband við framliðna, enda lýsi Biblían draumum og vitrunum og taki mark á þeim.

Enn ein skoðun hins nýkjörna biskupsefnis, sem kom fram í viðtalinu við Dagblaðið, var, að biskupsembættin yrðu þrjú. Fyrsta skrefið í þá átt væri að auka verksvið vígslubiskupa og leysa þá undan prestsþjónustu.

Í flestum, ef ekki öllum, þessum atriðum mun séra Pétur njóta stuðnings lærðra og leikra í kirkjunni.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið