0744 Afkoma dagblaða II

0744

Deyjandi dagblöð
Afkoman II

Hrun hefur orðið í lestri bandarískra dagblaða síðustu áratugi og má kalla það jarðkjálfta. Þau hafa bætt sér það upp með því að hækka auglýsingataxta um 253% á meðan verðbólga var 141%. Einnig með ódýrari vinnslu.

Þrjú atriði eru vanmetin af blaðaútgefendum í þessu samhengi. Það eru:
1) Kennari í fullu starfi við símenntun á ritstjórn,
2) Umboðsmaður lesenda,
3) Sérhæfður blaðamaður í töflureiknum og gagnagrunnum.

Þetta þrenns konar vanmat á ekki síður við um Ísland. Hér er sáralítið um símenntun blaðamanna, hvað þá að kennari sé á ritstjórn. Hvergi er notaður umboðsmaður lesenda. Gröf og kort eru lítið notuð í samanburði við önnur lönd.

Sérhæfður blaðamaður í töflureiknum og gagnagrunnum getur náð gögnum af netinu og notað töflureikni eða gagnagrunn til að raða þeim upp. Hann getur notað tölfræði á borð við correlation, significance og regression. Hann getur búið til úrtök.

Umboðsmaður lesenda er sérstök tegund af vinnumagni, sem hefur gott samhengi við þétta útbreiðslu, einnig símenntun og skólastarf á ritstjórn. Heildarfjöldi starfsmanna á ritstjórn hefur líka áhrif, en ekki eins mikil.

Borin voru saman blöð með umboðsmönnum og án þeirra. Blöðum með umboðsmönnum hélst betur á dreifingunni. Munurinn nam 3 prósentustigum. Tíminn, sem mældur var, hefði þurft að vera lengri.

Umboðsmaður tengir lesendur betur við dagblöðin. Blað, sem er í góðum málum fjárhagslega, er líklegra til að hafa umboðsmann. Umboðsmaður er sýnilegt tákn um, að viðkomandi dagblaði sé annt um hróður sinn.

Nokkrir tugir bandarískra fjölmiðla hafa umboðsmann á ritstjórn. Heildartala þeirra hefur lítið hækkað undanfarinn áratug. Flest dagblöð eru í vítahringnum, telja sig ekki hafa ráð á slíkum “lúxus”. Eins og þau hafa ekki heldur ráð á kennara á ritstjórn.

Það var mikil breyting fyrir dagblöð að fara að þurfa að taka tillit til hluthafa og álitsgjafa í Wall Street. Áður höfðu þau verið rekin á óformlegan hátt með litlum arðsemiskröfum, en nú hefur það gerbreyst.

Í gamla daga hittust stjórnir dagblaða einu sinni á ári. Þar var dreift stuttaralegri útgáfu af ársreikningi og eintökin tekin til baka í fundarlok. Ekki einu sinni stjórarnir fengu að halda sínu eintaki.

Gannett var fyrsta hlutafélag dagblaða, sem fór á Wall Street. Það varð þar fljótt vinsælt, enda voru engar umhleypingar í afkomunni, heldur batnaði hún jafnt og þétt ársfjórðung eftir ársfjórðung. Með frumkvæði og hugmyndaflugi í bókhaldi.

Dagblað getur rakað inn Pulitzer-verðlaunum og verðlaunum fyrir góða hönnun og það getur staðið sig vel í rannsóknablaðamennsku, en endurskoðendurnir líta bara á breytingar á nafnverði hagnaðarins án verðbólgureiknings.

USA Today er þó dæmi um, að nýbreytni getur gengið vel, þótt hún fari ekki eftir þeim lögmálum skammtímans, sem Wall Street kýs helst. USA Today var fjárfesting til langs tíma, sem tók langan tíma að skila arði.

Neyðaráætlanir hjá Gannet, sem skylda ritstjórnir til að skera niður áætlanir á miðju ári, hafa skaðleg áhrif. Festa í mannahaldi gefur til kynna, að menn geti komist til mannvirðinga á einum og sama stað, fyrirtækinu sé annt um starfslið.

Hjá Gannet hafði hver ritstjóri aðgang að öðrum manni í höfuðstöðvunum en framkvæmdastjórinn hafði, en hjá Knight Ridder höfðu ritstjóri og framkvæmdastjóri sameiginlega aðgang að sama manninum. Ritstjórum fannst fyrra formið betra.

Þótt sveiflur séu í blaðaútgáfu, eru þær ekki svo miklar, að þær þurfi að leiða til uppsagna. Niðursveiflur eru skammvinnar, yfirleitt innan við eitt ár. Uppsveiflur eru langvinnari, yfirleitt fimm ár eða lengri.

Þegar illa árar, bjóða veitingahús ekki lakari mat, fatabúðir ekki lélegri föt, bílasalar ekki lélegri bíla. Hvers vegna skyldu útgefendur dagblaða bjóða lélegri vöru, þegar niðursveifla er í viðskiptum? Það er ekkert vit í slíku.

Mörg dagblöð, sem fóru á markað, vildu bara ná sér í peninga, án þess að undirgangast það, sem því fylgir. Ef þú vilt ekki lenda í hremmingum ársfjórðungsreikninga áttu ekki að fara á markað, heldur taka lán.

Ritstjórar velgengnisblaða og blaða í erfiðleikum virðast hafa haft svipaða ritstjórnarstefnu á þessum tíma. Því er nærtækt að telja, að minni útbreiðsla sé ekki háð efni blaðanna, heldur stafi af verðbreytingum, dreifingu og búsetu.

Washington Post er dæmi um dagblað, sem hefur lítinn áhuga á hagnaði. Blaðið skilar að vísu arði ár eftir ár, en engum upphæðum, sem Wall Street mundi virða. Washington Post er ekki í skammtímamálum, heldur stöðu til langs tíma.

Philip Meyer:
The Vanishing Newspaper, 
2004