Eitt furðulegasta og ótrúlegasta einkenni Reykjavíkur er laxveiðin innan borgarmarkanna í Elliðaánum. Veiðin hófst þar í gær í fögru sumarveðri. Þrátt fyrir umferðarys og húsbyggingar beggja vegna leitar laxinn upp ána í sama mæli og fyrr. Þetta er ein af beztu laxveiðiám landsins, enda er vatnið í henni hreinna og tærara en krafizt er af drykkjarvatni í Bandaríkjunum.
Elliðaárnar eru skýrasta dæmið um, að Reykjavík stendur í fylkingarbrjósti borga heims í umhverfisverndun og baráttu gegn mengun. Hvergi annars staðar í heiminum hefur tekizt að halda árvatni innan borgarmarka jafn tæru og vatni Elliðaánna.
Um þessar mundir stendur sem hæst hin árlega barátta borgaryfirvalda fyrir auknu hreinlæti og snyrtimennsku á almannafæri. Sem fyrr eru það athafnasvæði ýmissa verkstæða, er verst eru útlítandi. Forstöðumenn þessara fyrirtækja virðast hvorki láta sér segjast við áminningar né hótanir og einangrast æ meira í sóðaskap sínum, meðan annað umhverfi Reykvíkinga verður sífellt fegurra og snyrtilegra.
Þótt undarlegt megi virðast, er malbikið forsenda hins mikla áhuga, sem nú ríkir meðal lóðareigenda á ræktun og garðyrkju. Meðan rykmökkurinn stóð af malargötunum, háðu garðeigendur vonlausa baráttu.En nú er malbikið komið á allar skipulagðar götur i Reykjavík, og garðeigendur geta þvi tekið til óspilltra málanna.
Malbikun gatna Reykjavíkur var mikið og dýrt átak, sem unnið var á skömmum tíma. Hún varð að ganga fyrir annarri fegrun umhverfisins í Reykjavík. En nú beinir borgin kröftum sínum í verulega auknum mæli að grasrækt og skógrækt á svæðum þeim, sem hún hefur til umráða.
Upp á síðkastið hefur gætt broslegrar andúðar á malbiki. Það hefur verið tízka að stilla malbiki og grasi upp sem andstæðum. Þeir, sem fallið hafa fyrir þessari tízku, eru búnir að gleyma, hvernig borgin var fyrir malbikun. Þeir kæra sig heldur ekki um að íhuga, að góðar samgöngur innan borga eru ein helzta forsenda þjóðfélags nútímans. Það á ekki sízt við dreifbyggða borg eins og Reykjavík.
Dreifbýlið í Reykjavík stuðlar að hindrun mengunar frá bílaumferð. Malbikið heldur rykinu i skefjum. 0g hitaveitan hefur gert borgina reyklausa. Reykvíkingar anda því að sér hreinna lofti en íbúar annarra borga heims.
Holræsakerfið er veikasti hlekkurinn i umhverfisverndun Reykjavíkur. Að vísu er sjórinn umhverfis borgina hreinni en við flestar aðrar hafnarborgir. En hann er ekki nógu hreinn. Þess vegna stefna borgaryfirvöld nú að því að verja einum milljarði króna á næstu árum til að sameina og endurbæta útrennsli holræsakerfisins. Þetta er næsta stórátak Reykjavíkurborgar.
Laugardalurinn og Öskjuhlíðin eru að ræktast upp sem myndarleg útivistarsvæði inni í miðri borginni. Fegrun Elliðaárdalsins er í fullum gangi. Og svo má ekki gleyma Heiðmörk, langstærsta útivistarsvæðinu innan borgarmarkanna. Það er áreiðanlega leitun að borg, sem miðað við íbúafjölda hefur jafnmikil útivistarsvæði innan borgarmarkanna.
Við skulum öll leggja hönd á plóginn og halda ótrauð áfram þessa ánægjulegu braut.
Jónas Kristjánsson
Vísir