Á hverfanda hveli

Greinar

Aðeins rúmur aldarfjórðungur er til ársins 2000. Væntanlega mun mikill meirihluti núlifandi manna vera enn á lífi á því merka ári tímatals okkar. Ef við lítum til baka til síðasta aldarfjórðungs, þarf ekki mikið hugarflug til að geta sér þess til, að breytingarnar verði hrikalegar fram til aldamótanna miklu.

Allt bendir til þess, að skriðufall uppfinninga og tækniþróunar verði enn stórkostlegra á næstu árum en það hefur verið á undanförnum árum. Það er aðeins talið tímaspursmál, hvenær kjarnorka verður beizluð til daglegra þarfa og fundið verður upp ódýr orkugeymsluaðferð. Ódýr afsöltun sjávar til framleiðslu á ferskvatni og ódýr framleiðsla á gervieggjahvítu eru einnig á næsta leiti, svo að önnur mikilvæg dæmi séu nefnd.

Ef mannkynið ætlar sér framtíð á Hótel Jörð, verður mannfjölgunin að hafa stöðvazt fyrir eða um aldamótin. Núverandi mannfjölgun getur aðeins leitt til hreins öngþveitis, ef hún verður ekki stöðvuð í tæka tíð. Íbúafjöldi jarðarinnar er þegar orðinn miklu meiri en heppilegt er. Á sama tíma verður baráttan fyrir umhverfisvernd að hafa leitt til nýs og betra jafnvægis í náttúrunni. Við verðum að gera ráð fyrir því, að sjálfsbjargarviðleitni mannsins leiði til lausnar á þessum vandamálum í tæka tíð.

Þótt lífið sé orðið þægilegt hjá borgurum háþróaðra ríkja, verður það enn þægilegra um aldamótin. Vinnuvikan verður varla lengri en 25 tímar, en samt verður kaupmátturinn tvöfaldur og jafnvel margfaldur á við það , sem hann er um þessar mundir. Þá mun svonefnd ævimenntun eða símenntun hafa leyst núverandi unglingamenntun af hólmi.

Alþjóðamálin munu vafalítið ganga á afturfótunum árið 2000 eins og jafnan áður. Það má þó reikna með, að fyrir þann tíma hafi heimsveldunum tekizt að stöðva vígbúnaðarkapphlaupið og koma á alþjóðlegum samdrætti herafla. Jafnframt mnnu Sameinuðu þjóðirnar vafalaust hafa öðlazt aukinn styrk og vald árið2000 til að halda uppi friði í heiminum.

Hins vegar er ótrúlegt, að aldarfjórðungur nægi til að tengja saman hinar auðugu og fátæku þjóðir heims. Efnahagsbilið milli þessara þjóða er sífelltað breikka og virðist ætla að gera það enn um langt árabil. Jafnframt er að magnast upp spenna í viðskiptum þessara þjóða. Fátæku þjóðirnar eru með hverju árinu að verða róttækari í afstöðunni til auðugu þjóðanna og þeirrar heimsmyndar, sem þær hafa skapað. Svo getur hæglega farið, að þessir tveir heimshlutar standi árið 2000 með steytta hnefana hvor framan í annan.

Heimsborgarar ársins 2000 munu vafalaust brosa að því, sem þótti fréttnæmt árið1973. Þeim munu finnast umhugsunarefni og vandamál okkar næsta ómerkileg. Sjálfsagt munum við minna þá á rjúpuna, sem rembist við staurinn, því að umtalsefni okkar einkennast oft af skammsýni og glingri við aukaatriði. En þannig hefur fortíðin yfirleitt birzt í augum framtíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

Vísir