Mikil alda rís nú gegn hvalveiðum, eftir að þrotlaus veiðiskapur um áratugi hefur gengið mjög nærri ýmsum tegundum hvala og beinlínis útrýmt sumum. Margir heimskunnir menn skrifuðu undir áskorun um 10 ára veiðibann í tilefni af fundi alþjóðlegu hvalveiðinefndarinnar á þriðjudaginn.
Neitun nefndarinnar um bannið er nú túlkuð sem dæmi um, hve þröngsýna einstefnu efnahagslegir hagsmunir geta tekið. Má nú búast við mikilli reiði umhverfisverndarmanna í garð þeirra ríkja, sem með atkvæði sínu í nefndinni komu í veg fyrir veiðibann.
Það hefur greinilega komið í ljós, að ein röksemd framar öðrum hefur borið árangur í áróðri Íslendinga á erlendum vettvangi í landhelgismálinu. Það er röksemd friðunarinnar, sú röksemd, að alþjóðlegt samstarf í veiðinefndum sé of seinvirkt til að hindra hnignun og hrun fiskistofnanna. Erlendir menn skilja, að Íslendingar verða að grípa til einhliða aðgerða til að hafa hemil á rányrkju á fiski á landgrunnssvæðinu.
Þessi röksemd hefur aflað okkur fylgis norrænna þjóða. Hún hefur líka aflað okkur samúðar meðal þjóða þeirra, sem nú deila við okkur um landhelgismálið, Breta og Vestur-Þjóðverja, og gert ríkisstjórnum þeirra erfiðara um vík að halda áfram þvergirðingshætti sínum.
En mikið hljóta þessar hrjáðu ríkisstjórnir að fagna afstöðu Íslands í alþjóðlegu hvalveiðinefndinni. Þar fluttu fulltrúar Íslands nákvæmlega sömu undanbrögðin í hvalveiðimálinu og fulltrúar Breta hafa á öðrum vettvangi flutt í þorskveiðimálinu. Við létum fiskifræðinga vitna gegn banni á hvalveiðum, alveg eins og Bretar láta fiskifræðinga vitna gegn þörfinni á takmörkunum á þorskveiði við Ísland.
Við keyrðum þrönga sérhagsmuni áfram til sigurs á fundi alþjóðlegu hvalveiðinefndarinnar, alveg eins og Bretar eru að reyna að keyra þrönga sérhagsmuni útgerðarinnar við Humber-fljót til sigurs í landhelgismálinu.
Það er hörmulegt, þegar vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gerir. Enn hörmulegra er, þegar við smíðum sjálfir vopn í hendur andstæðinga okkar í landhelgismálinu.hinir þriðju í röðinni.
Jónas Kristjánsson
Vísir