Frá Blikalóni á Melrakkasléttu að Hólsvík við Raufarhöfn.
Farið er suður eftir vesturbrún Blikalónsdals, sem er grunn sigdæld, er gengur átján kílómetra suður í sléttuna. Dalurinn er misgengi á svipaðan hátt og Þingvallavatnslægðin. Hamraveggir eru til beggja hliða dældarinnar. Dalurinn er allur mjög gróinn, eins og raunar sléttan öll. Þegar beygt er þvert til austurs upp úr dalnum, tekur við mikið vatnasvæði, þar sem hver tjörnin rekur aðra og vel þýfðir móar og mýrar eru þar á milli. Engir jeppar eiga að geta verið hér á ferð. Undir Melrakkasléttu er grágrýti frá ísöld og ofan á honum eru móar og mýrar líkt og í freðmýrum heimskautalanda. Að vestanverðu er fjöldi stöðuvatna, tjarna, áa og lækja og gróin mýradrög milli blásinna mela. Austan Blikalónsdals eru þurrlendir móar á stangli.
Förum frá Blikalóni tæpan kílómetra með þjóðvegi 85 til austurs, síðan til suðurs á dráttarvélaslóð suður með vesturbrún Blikalónsdals. Förum þar um Arnarbæli, Þrætuvatnsás og Þúfuás að fjallaskála á Melrakkasléttu. Beygjum þar til austurs yfir dalinn og upp austurbrún dalverpisins. Förum þar á einstigi um þýft land, fyrst í austur og síðan suðaustur fyrir Hvanntjörn og svo áfram austur að eyðibýlinu Grashóli. Þaðan förum við veiðiveg niður á þjóðveg 85 fyrir sunnan Raufarhöfn. Fylgjum honum til suðurs að Höfða í Hólsvík.
29,4 km
Þingeyjarsýslur
Skálar:
Blikalónsheiði: N66 23.340 W16 13.019.
Nálægir ferlar: Oddsstaðir, Klíningsskarð, Fjallgarður.
Nálægar leiðir: Grjótnes, Raufarhafnarvegur, Hólsstígur, Beltisvatn.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson