Frá Sauðafelli í Dölum að Hvammi í Norðurárdal.
Þessi leið er að mestu orðin að bílvegi með varanlegu slitlagi og því ófær hestum. Aðeins sjálf Brattabrekka er enn reiðleið. Hér er þeim kafla leiðarinnar lýst.
Um Bröttubrekku lá gamla póstleiðin vestur í Dali. Sturla Sighvatsson á Sauðafelli hafði hestvörð árið 1238 í Bröttubrekku til að fylgjast með ferðum herflokks Gissurar Þorvaldssonar og Kolbeins unga. Í Sturlunga sögu er sagt frá ferð Þórðar kakala um Bröttubrekku 1243. Þar segir: “Skildust þeir við það, að Snorri fór vestur í fjörðu, en Þórður fór leið sína vestur á Skógarströnd og svo inn til Dala. Fann Þórður menn sína alla að Höfða við Haukadalsá. Riðu þeir þá manni miður en hálfur sjötti tugur suður um Bröttubrekku og suður yfir Karlsháls um nóttina og svo upp eftir Kjarrárdal og komu fram drottinsmorgun við sólarroð til Fljótstungu svo að enginn maður varð var við reið þeirra um héraðið. Riðu þeir drottinsdagskvöldið á Arnarvatnsheiði.”
Byrjum við þjóðveg 60, þar sem hann liggur yfir Brúnkollugil. Þjóðvegurinn liggur beint suður, en við förum suðaustur inn Suðurárdal og bratt austur og upp í skarð í 400 metra hæð milli Bana að norðan og Brekkumúla að sunnan. Þar komum við á brún Bröttubrekku. Þar förum við varlega sneiðinga niður bratta brekku í Bjarnadal. Það er Brattabrekka, núverandi bílvegur liggur ekki um hana. Fylgjum dalnum beint til suðurs og komum aftur inn á þjóðveg 60 suðvestan við Baulu og austan við Bungu.
8,5 km
Snæfellsnes-Dalir
Nálægir ferlar: Jafnaskarð.
Skrásetjari: Glaður, hestamannafélag
Heimild: Glaður, hestamannafélag