Frá Ytri-Einirlæk í Austurdal um Elliða til Austurdals við Hvítármúla.
Leiðin er á korti herforingjaráðsins. Hún virðist ekki hafa annan tilgang en að tengja byggðina vestan Austari-Jökulsár í Skagafirði við leiðina um Nýjabæjarfjall til Eyjafjarðar. Þá virðist hafa verið dráttur á Jökulsá eða annar búnaður við Hvítármúla til að komast þar yfir ána. Þrautavað var hins vegar við Ábæ. Ekki verður lengur komizt yfir ána hjá Hvítármúla, svo að leiðin hefur tapað notagildi. Síðan brú kom á Jökulsá norðaustan Ábæjarkirkju hefur umferð yfir ána verið þar.
Austdælingar bjuggu til vetrarbrýr á Jökulsá. Vaður úr hrosshári var strengdur þvert yfir ár neðan til á hyljum, þannig að hann rétt snerti vatnsborðið, Krapaburður staðnæmdist við strenginn, fraus saman og varð að manngengum ís.
Förum frá Ytri-Einirlæk suðvestur yfir Austari-Jökulsá og suðvestur upp Elliðatagl. Síðan suðaustur eftir brún Elliða og yfir drög Hrafnsurðargils. Norðaustur og niður fjallið að Austari-Jökulsá við Hvítármúla. Milli endapunktanna, sem hér er lýst, má líka fara eftir Austurdal, vestan við Austari-Jökulsá.
23,9 km
Skagafjörður
Ekki fyrir hesta
Ekki fyrir göngufólk
Nálægar leiðir: Nýjabæjarfjall.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort