Frá Hólsvík á Melrakkasléttu til Flautafells í Þistilfirði.
Nýr bílvegur yfir sléttuna liggur þvert á slóðina og rýfur kyrrð hennar. Frá Raufarhöfn liggja einnig reiðslóðir austur í Kópasker og að Efri-Hólum í Núpasveit, svo og norðaustur að Blikalóni.
Falleg leið um blómlegt land undir fjallarana á Melrakkasléttu austanverðri. Meðfram Bláskriðu og Fjallgarði. Nokkur skörð á fjallgarðinum tengja sléttuna við austurströndina. Svalbarðsskarð tengir Melrakkasléttu við Þistilfjörð.
Byrjum á þjóðvegi 85 sunnan Raufarhafnar við Hól. Förum 200 metra með veginum, beygjum til vesturs fyrir flugvöllinn og síðan suður að Ormarsá. Fylgjum henni að vestan um Hvannamýri og Fitjar, nálægt eyðibýlinu Grasgeira. Komum að Bláskriðu handan árinnar, förum þar yfir ána og fylgjum fast fjallinu til suðurs. Um eyðibýlið Krossavíkursel og áfram suður með fjallgarðinum framhjá Kollavíkurskarði og stefnum í 200 metra hæð á Svalbarðsskarð. Förum bratta brekku upp skarðið, milli Merkiaxlar og Óttarshnjúks, og höldum áfram heiðina, í tæplega 300 metra hæð. Förum suðaustur fyrir Stóra-Viðarvatn, sem liggur mun lægra í landinu. Þar komum við að þjóðvegi 867 yfir Öxarfjarðarheiði. Veljum gamla veginn, þar sem kostur er, og förum Þjófaklettabrekkur niður að Sævarlandi í Þistilfirði. Þar förum við til suðurs með þjóðvegi 85 nokkra kílómetra og beygjum síðan til vesturs, áður en komið er að Svalbarðsá. Fylgjum vegi til suðurs með vestanverðri ánni og sjáum skólann á Svalbarði handan hennar. Við næstu brú á Svalbarðsá förum við af vegi um hlið og stefnum áfram til suðurs með ánni að vestan unz við komum í haga undir Flautafelli, andspænis Svalbarðsseli handan árinnar.
41,8 km
Þingeyjarsýslur
Nálægir ferlar: Fjallgarður 2, Klíningsskarð, Blikalónsdalur, Öxarfjarðarheiði, Laufskáli.
Nálægar leiðir: Raufarhafnarvegur, Hólsstígur, Beltisvatn, Grasgeiri, Sléttuvegur, Krossavík, Hófaskarð, Hólaheiði, Kollavíkurskarð, Biskupsás, Súlnafell, Búrfellsheiði, Ferðamannavegur.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson