Hafrafellsleið

Frá Sandfellshaga í Öxarfirði að Austara-Landi við Jökulsá.

Gott dæmi um greiða reiðleið um hlýlegt land með nokkrum skógi milli bæja utan jeppavega og heimreiða. Bílvegurinn um sveitina liggur nær Sandá, en reiðleiðin er nær fjöllunum Sandfelli og Hafrafelli, sem hér gnæfa brött í austri. Leiðin liggur unaðslega um kjarrlendi og birkiskóga við Brunná og síðan um þurrt heiðarland og lyngmóa. Eina fyrirstaðan er árgilið vestan við tún á Bjarnastöðum, sem reynist hestum nokkuð bratt.

Byrjum við réttina við þjóðveg 865 neðan við Sandfellshaga. Förum suður frá réttinni austan Skeggjastaðaár og upp með Brunná, um eyðibýlin Skeggjastaði og Lækjardal og síðan um Tunguhólma. Upp á þjóðveg 865 til Hafrafellstungu, um 200 metra vestur með þjóðveginum og síðan suður að Smjörhóli undir Hafrafelli. Þaðan áfram suður á heiðina milli Smjörhóls og Bjarnastaða. Höldum áfram að girðingu um tún á Bjarnastöðum. Síðan vestur fyrir girðinguna, um bratt árgil og yfir heimreið til Bjarnastaða, áfram suður á þjóðveg 864 um Öxarfjörð. Förum hálfan annan kílómetra með veginum og síðan afleggjara til vesturs að Austara-Landi.

15,1 km
Þingeyjarsýslur

Nálægir ferlar: Þverárhyrna, Öxarfjarðarheiði, Öxarfjörður, Hljóðaklettar, Hafursstaðir.
Nálægar leiðir: Urðir, Súlnafell, Hestatorfa.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson