Haugsleið

Frá Fremri-Hlíð í Vesturárdal í Vopnafirði um Haugsöræfi að Víðirhóli á Fjöllum.

Þetta var aðalleiðin milli Vopnafjarðar og Hólsfjalla, langur fjallvegur og erfiður. Þarna var lagður sími 1906. Árið 1881 urðu tveir menn úti á Haugsöræfum. Þar heitir Dauðagil. Önnur örnefni á svæðinu eru ekki öll upplífgandi, svo sem Dimmagil og Heljardalur.

Förum frá Fremri-Hlíð norðvestur á fjallið og síðan suðvestur eftir fjallinu, norðan við tindinn á Rjúpnafelli og um Búrfell. Vestan þess förum við norðvestur yfir drög Selárdals að Mælifelli og fjallaskálanum Aðalbóli. Síðan upp með Selsá í átt að Kollufelli. Sveigjum til norðvesturs og síðan vesturs að fjallaskálanum Austarahúsi. Áfram vestnorðvestur um Austari-Haugsbrekku að Haugsgili sunnan Haugsvatns. Förum vestur um gilið og síðan áfram vestur, í 760 metra hæð, um fjallaskálann Vestarahús að vegamótum norðan Hólskerlingar. Við förum norðvestur fyrir endann á Víðirhólsfjallgarði að Víðirhóli.

70,4 km
Austfirðir, Þingeyjarsýslur

Skálar:
Aðalból: N65 41.394 W15 18.309. 380 metrar.
Austarahús: N65 41.426 W15 32.094.
Vestarahús: N65 42.590 W15 49.400.

Nálægir ferlar: Hólsfjöll.
Nálægar leiðir: Vopnafjörður, Dimmifjallgarður, Einbúi, Heljardalur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort