Hringferð um Hjörsey og Hjörseyjarsand.
Eyjarnar eru nánast landfastar á fjöru og við verðum því að sæta sjávarföllum.
Miðnæturreið í kyrru veðri er ógleymanleg á þessum slóðum. Hjörsey er stærsta eyjan fyrir Mýrum, en fer minnkandi vegna sjávargangs. Hún var kirkjujörð fram undir 1900. Flatlend og grasgefin. Útræði var gott og mikill reki. Skipströnd voru tíð. Grunnpunktur landmælinga við Ísland var til skamms tíma í Hjörsey, áður en gervihnettir og GPS tóku við landmælingum. Oddný Þorkelsdóttir Eykyndill, fögur kona og festarmey Björns Hítdælakappa, átti heima í Hjörsey. Þórður Kolbeinsson, skáld, ginnti hana frá Birni.
Byrjum við þjóðveg 540 um Mýrar, suðvestan við Hundastapa, þar sem vegurinn liggur lengst til suðurs. Þar er næturhagi frá Álftárósi. Frá vegarhorninu förum við um hlið og fylgjum slóð suður og suðvestur til Hólmakotsvatns. Förum austan við vatnið að eyðibýlinu Seljum og síðan áfram suður um rif og ála í austurhorn eyjarinnar Hjörseyjarsands og síðan áfram um sundið suður í Hjörsey. Tökum þar land í norðausturhorni eyjarinnar og förum síðan réttsælis hring um eyjuna. Úr norðvesturhorni Hjörseyjar förum við aftur um sundið til baka í Hjörseyjarsand. Förum norðvestur fjöru Hjörseyjarsands meðfram eyjunni og síðan þvert austur yfir norðurhorn hennar. Þar förum við sundið til austurs í land, síðan áfram að eyðibýlinu Seljum og fyrri leið til baka.
22,6 km
Borgarfjörður-Mýrar
Nálægir ferlar: Akrar.
Nálægar leiðir: Saurar, Æðarvatn.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson