Frá Laugarhóli í Bjarnarfirði um Hólsfjall til Laugarhóls í Bjarnarfirði.
Um Svanshól segir á Vestfjarðavefnum: “Í Njálu og Grettissögu segir af Svani á Svanshóli í Bjarnarfirði. Hann var mikill galdramaður … magnaði þoku mikla á Bjarnarfjarðarhálsi, sem varði hann fyrir óvinum sínum. Þeir reyndu í þrígang að komast yfir hálsinn, en galdraþokan kom ætíð í veg fyrir það.
Ofan við bæinn á Svanshóli er grunnt gil í hlíðina er heitir Svansgjá og er samnefnd gjá í Kaldbakshorni norðar á Ströndum. Munnmæli herma að Svanur hafi gengið inn í Hólsfjall við bæ sinn og út um Svansgjá í Kaldbakshorni þá er hann fór til sjóróðra. Njála getur þess að hann hafi týnst í sjóróðri út af Veiðileysufirði og þá hafi fiskimenn í Kaldbaksvík séð hann ganga í land undir Kaldbakshorni og hverfa inn í Svansgjá.”
Förum frá Laugarhóli. Leiðinni er þannig lýst á Vestfjarðavefnum: “Við þjóðveginn þar sem hann liggur yfir Hallardalsá, rétt utan við Hótel Laugarhól í Bjarnarfirði, er gönguleiðaskilti sem markar upphaf leiðarinnar. Gengið er yfir brúna á þjóðveginum sem liggur yfir Hallardalsá og síðan upp með ánni eftir varnargarði. Gengið er meðfram Hallardalsárgljúfri og að Goðafossi sem steypist ofan í gljúfrið efst í því. Ofan við fossinn er haldið yfir ána og stefnt í norðvestur á skarð í fjallsöxlina og skásneitt upp að klettum. Víðsýnt er yfir Bjarnarfjarðarháls, Steingrímsfjörð, til Húnaflóa, Langjökuls og Eiríksjökuls. Þverá er síðan fylgt niður af fjallinu en hún steypist í mörgum fossum ofan í Þverárgljúfur. Neðan við gljúfrið er göngubrú yfir ána og þaðan er fylgt götum niður í dalinn fyrir ofan bæinn Svanshól og út að Laugarhóli aftur.”
8,1 km
Vestfirðir
Erfitt fyrir hesta
Nálægar leiðir: Urriðavötn, Þórisgata, Dimmudalir.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort