Hvað þýðir setningin: „Hetjur hafsins komu líka í land, duttu í það og lömdu konurnar sínar“? Er hér talað um alla sjómenn, flesta sjómenn, marga sjómenn, nokkra sjómenn, einn sjómann? Orð eru hættuleg, séu þau of losaraleg, eins og reyndist vera í þessu tilviki. Hef stundum notað losaraleg orð, sem betur hefðu verið skilgreind nánar. Reyni að forðast slíkt, með misjöfnum árangri. Vilji fólk kveða fast að orði, er mikilvægt að gera það skipulega og markvisst. Ef fólk reiðist snöggt ofsalega, er mikilvægt að forðast lyklaborð, unz reiðin er runnin. Þá fyrst er hægt að rita umbúðalaust án þess að verða sér til skammar.