Davy Byrne’s
Tízkukrá uppanna í miðbænum er Davy Byrne’s, andspænis Bailey við Duke Street, frægust fyrir gorgonzola-ostinn og Búrgundarvínið, sem Leopold Bloom fékk sér þar í skáldsögunni Ódysseifi eftir James Joyce.
Innréttingar þessarar björtu kráar eru að hluta til í millistríðsárastíl, með veggmyndum af þekktum rithöfundum, sem voru uppi eftir aldamótin. Að aftanverðu er nýtízkulegri bar með amerísku hanastélssniði.
Hér er flest fólk vel klætt, ungt fólk á uppleið í viðð svipað fólk úr hópi ferðamanna.
(Davy Byrne’s, 21 Duke Street, C3)
Old Stand
Helzta íþróttaáhugakrá miðborgarinnar er Old Stand í hliðargötunum að baki Grafton Street, um 100 metrum frá Powerscourt verzlunarmiðstöðinni.
Þetta er fremur björt krá, tvískipt, og óvenjulega rúmgóð, hreinleg og einföld að allri gerð, ekki mjög gömul að húsbúnaði. Innan dyra er hægt að ganga slitið trégólfið hringinn umhverfis barina tvo.
Hér safnast margir áhugamenn um keppnisíþróttir, svo sem veðreiðar og írskan slagsmálabolta. Margir fá sér snæðing.
(Old Stand, Exchequer Street, C3)
O’Neill’s
Nærtækasta stúdentakrá miðbæjarins er O’Neill’s á horninu andspænis St Andrews kirkju, 100 metrum frá aðalfumferðartorginu College Green, þar sem er aðalinngangur Trinity háskóla.
Einkennistákn kráarinnar er stór klukka yfir öðrum innganginum. Þetta er stór, hreinleg, vel viðuð og lítið skreytt krá með töluverðu setuplássi.
Kráin er vel sótt, bæði af stúdentum og borgurum. Menn sækja ekki bara í bjórinn, heldur líka í snarlið.
(O’Neill’s, 2 Suffolk Street, C3)
Næstu skref