Foyle
Nokkrar verzlanir í viðbót eru skoðunar virði, þótt þær hafi ekki rúmast á undangenginni gönguferð okkar um St James´s og austanvert Mayfair hverfi. Ein er Foyle, 119-125 Charing Cross Road, stærsta bókabúð í London, með fjórar milljónir binda. Hún hefur reynzt okkur öruggari en margar sérhæfðu bókabúðirnar. Bezt er að spyrja strax til vegar á jarðhæðinni, svo að síður sé hætta á að ráfa í villu á efri hæðum.
Í hliðargötum Charing Cross Road austanverðs eru margar góðar fornbókaverzlanir, þar sem dveljast má löngum stundum.
Purdey
Í South Audley Street í Mayfair, á nr. 57, er byssusali drottningarinnar, Purdey. Þar er rétti staðurinn til að kaupa skotvopn til refaveiða, ef við höfum GBP 30.000 aflögu og megum vera að því að bíða í tvö ár. Ef við förum á hausinn af þessu, er hægt að selja byssuna aftur með gróða, því að eftirspurnin er svo mikil. Hver byssa er gerð eftir málum kaupandans og aðeins eru smíðaðar um hundrað á ári.
Whittard
Hin hefðbundna teverzlun heimsborgarinnar er Whittard við 11 Fulham Road í nágrenni South Kensington stöðvar. Þar fást rúmlega fimmtíu tegundir af te, fyrir utan ýmsar blöndur og fjölmörg jurtaseyði. Hér er siðmenningin varðveitt eftir innreið tes í pokum.
General Trading
Við Sloane Street nr. 144 er bezta gjafavörubúð borgarinnar, General Trading. Þessi verzlun sérhæfir sig í vörum, sem hægt er að gefa þeim, er eiga allt fyrir.
Harrods
Hér er rúsínan í pylsuendanum, hin sögufræga Harrods við Brompton Road. Ekki samt vegna þess, að allt fáist þar, jafnvel lifandi fílar, svo sem logið er að ykkur í öðrum leiðsögubókum, er éta upp hver eftir annarri. Úrvalið hér er minna en í Selfridges. Og þrisvar í röð höfum við orðið að snúa okkur annað, af því að varan fékkst ekki í Harrods.
En það sem er stórkostlegt hér, er matardeildin á jarðhæðinni. Hún er miklu betri en Fortnum & Mason og slagar upp í beztu sælkerabúðir Parísar. Ekki skaðar, að kjötdeildin lítur út eins og dómkirkja. Þar er m.a. hægt að fá margar tegundir af ekta kavíar og ferska gæsalifur til að hafa eitthvað með kampavíninu í morgunmatinn!
Önnur verzlun
Í nágrenni Harrods er gott verzlanahverfi við Brompton Road, Knightsbridge, nyrðri enda Sloane Street og Beauchamp Place, sem er skemmtileg hliðargata frá Brompton Road. Annað gott verzlanahverfi er við King´s Road, frá Sloane Square til suðvesturs, en það hefur ekki lengur sama stíl og á sjöunda áratugnum, þegar King´s Road var bezta tízkuverzlanagata borgarinnar. Hverfið, sem nú er helzt á uppleið, er Covent Garden, af því að endurreisn markaðarins hefur dælt nýju blóði í alla verzlun hverfisins í kring. Þar leitum við að spennandi búðum.
Nú kemur röðin að skoðunarverðum ferðamannastöðum.