Vanda þarf forgangsröðun

Greinar

Forgangsröðun sjúklinga kemst fyrr eða síðar til framkvæmda á heilbrigðisstofnunum. Hún er óhjákvæmileg vegna þess eins, að dýr tækni og dýr lyf eru að koma og munu koma hraðar til sögunnar en sem svarar aukinni getu okkar til að leggja fé til heilbrigðismála.

Taka þarf ákvörðun um að velja þessa dýru kosti eða hafna þeim. Ef einhverjir þeirra eru valdir, verða aðrir, eldri kostir að víkja. Af því að eldri kostirnir eru yfirleitt ódýrari, verða fleiri slíkir að víkja en sem svarar hinum nýju. Þetta er vítahringur, sem erfitt er að rjúfa.

Þegar farið er út í að láta sjúklinga greiða kostnað, er reynt að hafa það á tiltölulega ódýrum sviðum, en hlífa á móti sjúklingum á dýrum sviðum. Með þessu er reynt að jafna stöðu fólks. Fórnardýr sparnaðarins verða mörg, en upphæðinni á hvert þeirra haldið í skefjum.

Þetta hefur þá aukaverkun, að áherzlur heilbrigðiskerfisins færast meira en ella yfir í dýru kostina. Þetta byrjar sem viðbót við það, sem fyrir er, en endar með því að fækka ódýru kostunum, þegar greiðslugeta heilbrigðiskerfisins er sprungin eins og nú hefur gerzt.

Það er til dæmis athyglisvert í sparnaðarviðleitni hins opinbera, að reynt er að draga úr notkun ódýrra kosta, svo sem fyrirbyggjandi aðgerða og heilsuhæla, til þess að unnt sé að halda uppi tæknilega fullkominni þjónustu á langdýrustu deildum háþróuðustu sjúkrahúsanna.

Peningarnir mundu nýtast betur, ef ódýra meðferðin væri sjúklingum að kostnaðarlausu eða kostnaðarlitlu, en dýra meðferðin kallaði hins vegar á aukna þáttöku sjúklinga í kostnaði. Ýmis önnur sjónarmið en peningaleg valda því, að þessi leið er alls ekki auðfarin.

Það flækir málið, að hagkvæmnin kemur fram á öðrum stað en þeim, sem um er verið að fjalla. Fyrirbyggjandi aðgerðir sitja til dæmis á hakanum, af því að þær leiða ekki til lækkunar á tilgreindum fjárlagaliðum hér og nú. Þær auðvelda til dæmis ekki rekstur sjúkrahúsa.

Ef hægt væri með fyrirbyggjandi aðgerðum að fá fólk til að hætta að reykja og drekka og fara að borða hollan mat, hreyfa sig mikið og stunda slökun, byltir það heilsufari þjóðarinnar til batnaðar, þegar til langs tíma er litið. En það linar ekki kostnað ríkisins á líðandi stund.

Til langs tíma litið valda fyrirbyggjandi aðgerðir sparnaði í heilbrigðisgeira ríkisins. Til skamms tíma keppa þær hins vegar við dýrar stofnanir um takmarkað fjármagn heilbrigðismála. Og oftast verða fyrirbyggjandi aðgerðir að víkja fyrir tækniundrum sjúkrahúsa.

Hin sídýrari lyf og hin sídýrari tæki sjúkrahúsanna eru í mörgum tilvikum notuð til að fresta aðsteðjandi andláti um daga eða vikur og í sumum tilvikum til að framlengja dauðastríð fólks án vilja þess og jafnvel gegn vilja þess. Á þessu sviði er tímabært að staldra við.

Brýnt er að forgangsraða framboði á heilbrigðisþjónustu og aðgangi að henni, af því að kerfið er þegar sprungið. Í forgangsröðun hlýtur annars vegar að vera um pólitíska ákvörðun að ræða og hins vegar um faglega ákvörðun, eftir því um hvaða atriði er verið að fjalla.

Það er pólitísk ákvörðun að velja milli málaflokka eins og fyrirbyggjandi aðgerða annars vegar og sjúkrahúsa hins vegar. Hins vegar er það fagleg ákvörðun að velja milli sjúklinga. Milli hins almenna og hins sértæka er svo líklega grátt svæði með blönduðu ákvörðunarvaldi.

Forgangsröðun í heilbrigðismálum hefur lengi verið feimnismál. Það er að breytast um þessar mundir. Mikilvægt er, að vanda vel til þessarar forgangsröðunar.

Jónas Kristjánsson

DV