Eftir á að hyggja voru kosningarnar vonbrigði. Datt að vísu ekki í hug að kjósa Vinstri græn. Það gerðu þó margir, sem ég þekki. Almennt hafa þeir síðan ekki verið mönnum sinnandi. Mest snýst hugsunin um Katrínu, sem margir höfðu tekið trú á. Þeim er óbærileg hugsunin um að hafa verið höfð að fífli. Því fleiri dagar sem líða, þeim mun grimmar sígur inn ósigurinn. Katrín blekkti kjósendur sína, á því er enginn vafi. Fyrstu tilraun hennar um stjórn með Samfylkingunni, Framsókn og Pírötum var ekki ætlað að takast. Auðveldlega hefði komið í ljós, að hægt væri að bæta Viðreisn og Flokki fólksins við. Mun léttara en núverandi stjórnarmyndun.