Gengur betur næst

Greinar

Mikið hefur verið reynt að ljúga að Íslendingum í vetur. Hvert vandræðamálið hefur rekið annað, svo sem bygginganefnd Þjóðleikhússins, einkavæðing Símans og aðild Norsk Hydro að Reyðaráli. Í sumum tilvikum hafa áhrifamenn á flótta látið hrekja sig úr einni lyginni yfir í aðra.

Misjafnt er, hvort menn láta vandræðin sér að kenningu verða. Því miður er siðleysi í umgengni við sannleikann svo útbreitt meðal ráðamanna í stjórnmálum og viðskiptum, að sumir líta á það sem óheppni, þegar svik komast upp um síðir, og hvatningu um að vanda lygina betur næst.

Lygin rennur fram í breiðum straumi, allt frá misbeitingu spakmælisins um, að oft megi satt kyrrt liggja, yfir í rangar fullyrðingar gegn betri vitund. Hemlar á upplýsingum um breytt viðhorf Norsk Hydro til Reyðaráls sýna ýmis form lyginnar með aðild ýmissa lygalaupa.

14. febrúar veit framkvæmdastjóri Reyðaráls um stefnubreytingu Norsk Hydro, en lætur ekki ráðherra vita, þótt hún sé að flytja málið fyrir Alþingi. Tveim vikum síðar fær ráðherrann að vita um málið, en lætur sem ekkert sé. Að fimm vikum liðnum er breytingin loks viðurkennd.

Fjölmiðlar eiga erfitt um vik við þessar aðstæður, því að mest er að þeim logið. Óhjákvæmilega síast mörg lygin í gegn, enda tala lygalaupar með heiðríkjusvip oft beint í fjölmiðlum til fólks. Oft eru þeir hinir hortugustu, þegar kemur í ljós, að þeir hafa verið að reyna að blekkja fólk.

Það eru ekki bara valdamenn í stjórnmálum og viðskiptum, sem reyna að leyna almenning sannleikanum og koma rangfærslum á framfæri við hann. Víða eru hliðverðir, sem hafa lært að líta á það sem skyldu sína að koma í veg fyrir, að fjölmiðlar geti birt fólki réttar upplýsingar.

Á fjölmiðlum er oft kvartað um, að ýmsum hliðvörðum lögreglustöðva sé ekki treystandi. Þeir hafi látið kenna sér að leyna upplýsingum og séu bara nokkuð ánægðir með sig, þegar þeim tekst þetta hlutverk. Þeir hafi enga tilfinningu fyrir því, að þeir séu að gera sig að siðleysingjum.

Illræmdir eru sumir blaðurfulltrúar og spunameistarar stjórnmála og viðskiptalífs, aldir upp við vísindalegar aðferðir við blekkingar. Í mörgum tilvikum hafa slíkir aðilar nánast óheftan aðgang að sumum fjölmiðlum til að koma á framfæri þægilegum og hentugum rangfærslum.

Viðhorf almennings eru tvíeggjuð. Sumum finnst bara gott á fjölmiðla, að þeir skuli láta ljúga að sér og vera hafðir að fíflum. Þetta fólk áttar sig ekki á, að það er almenningur sjálfur, sem er skotmarkið, en ekki fjölmiðillinn. Flestir eru þó hneykslaðir og sumir leka réttum fréttum.

Lygin er skaðleg þjóðskipulaginu, af því að hún dregur úr trausti manna milli, þungamiðju vestræns þjóðfélags. Traustið er smurningin á snertiflötunum og leyfir hjólum efnahags og viðskipta að snúast hratt. Traust verður ekki framleitt, heldur verður það til á löngum tíma sannleiksástar.

Aukið gegnsæi í þjóðfélaginu er bezta leiðin til að draga úr lífslíkum lyginnar og efla traust manna milli. Þess vegna er almennt verið að auka gegnsæi á Vesturlöndum og lýsa inn í skúmaskotin, þar sem ákvarðanir eru teknar. Íslenzku upplýsingalögin eru skref í þessa átt að gegnsæi og trausti.

Ástandið fer svo að skána fyrir alvöru, þegar ráðamenn í stjórnmálum og viðskiptum hætta að hugsa: “Það gengur betur næst”, þegar þeir verða uppvísir að fyrirlitningu á sannleikanum.

Jónas Kristjánsson

FB