Tuttugu öldum of seint

Greinar

Samanburður Bandaríkjanna og Rómarveldis hins forna er orðinn hugleikinn bandarískum dálkahöfundum og pólitískum hugmyndafræðingum. Menn sjá í hillingum nýjan Rómarfrið í heiminum, Pax Americana, þar sem Bandaríkin deili og drottni eins og Róm gerði fyrir tuttugu öldum.

Margt er líkt með þessum tveimur heimsveldum. Róm rak eiginhagsmunastefnu og gaf nágrönnum öryggi í staðinn. Hún gætti þess, að enginn gæti keppt við sig í völdum og sigaði smáríkjum gegn keppninautum. Hún klæddi hagsmuni í skikkju hræsni og þóttist alltaf vera í vörn.

Síðustu misseri hafa Bandaríkin í auknum mæli hafnað neti fjölþjóðlegra sáttmála, sem hafa verið riðnir um heiminn í þrjár aldir. Þau hafa ekki undirritað nýja sáttmála, neita að staðfesta 40 aðra og eru byrjuð að falla frá staðfestum sáttmálum, allt til að hindra takmarkanir á fullveldi sínu.

Bandaríkin hafna til dæmis nýja stríðsglæpadómstólnum, sáttmálanum um bann við framleiðslu og dreifingu jarðsprengja, sáttmálanum um losun koltvísýrings í andrúmsloftið, sáttmálanum um eftirlit með eiturefnavopnum og þau tilkynna afnám sáttmála um fækkun kjarnorkuflauga.

Meginþemað er, að fjölþjóðasáttmálar eigi að gilda um alla aðra en Bandaríkin, sem séu Rómarveldi nútímans og þurfi að hafa svigrúm til að athafna sig sem slíkt. Stefnan hefur þá aukaverkun, að önnur ríki fylgja fordæmi höfðingjans og vilja líka fá að brjóta fjölþjóðasamninga.

Hræsnin er einn öflugasti hornsteinn hins nýja heimsveldis eins og hins gamla. Bandaríkin styðja hryðjuverkaríkið Ísrael og reka hryðjuverkaskóla til að grafa undan óþægum stjórnvöldum í rómönsku Ameríku á sama tíma og þau þykjast vera í heilögu stríði gegn hryðjuverkum.

Bandaríkin raða Írak, Íran og Norður-Kóreu á eins konar öxul hins illa, þótt ekkert pólitískt eða hernaðarlegt samhengi sé milli þessara ríkja. Á sama tíma mynda Bandaríkin illan öxul með Ísrael og hafa fram á allra síðustu daga stutt hernað Sharons, sem er fordæmdur um allan heim.

Bandaríkin hafa reynt að nota hryðjuverk á vegum Al Kaída og Taliban sem tylliástæðu til að rifja upp ágreininginn við stjórn Íraks og efna til nýrrar styrjaldar við Saddam Hussein. Ekki hefur tekist að sýna fram á neitt samband milli þessara tveggja óvina, enda er Hussein sérvandamál.

Með fjölgun herstöðva víða um heim, nú síðast í fyrrverandi Sovétlýðveldum norðan Afganistans, reyna Bandaríkin að skjóta hernaðarlegum fótum undir tilkall sitt til stöðu Rómarveldis í nútímanum. Enda efast enginn um algera hernaðaryfirburði Bandaríkjanna á jörðinni allri.

Heimsvaldastefnan hefur verið að grafa um sig í tæpan áratug. Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra er helzti hugmyndafræðingur hennar í ríkiskerfi Bandaríkjanna, Richard B. Cheney varaforseti er helzti áhangandinn og George W. Bush forseti er valdamesti þræll hennar.

Stefnan hefur þann galla, að pólitísk völd fylgja ekki hernaðarlegum völdum á sama hátt og var fyrir tuttugu öldum. Allur heimur Íslams hatar Bandaríkin eins og pestina. Evrópa er komin á fulla ferð við að svara viðskiptahöftum Bandaríkjanna fullum hálsi og láta verkin tala.

Til þess að reka heimsveldi að hætti Rómar þyrftu Bandaríkin að treysta sér til að reka sífellt stríð við umheiminn með árlegum herferðum um Evrópu og ríki Íslams. Tuttugu öldum of seint.

Jónas Kristjánsson

FB