Flaðrað upp um Pútín

Greinar

Forseti Íslands fór sér of óðslega í fínimannsleiknum í Moskvu um helgina. Engin ástæða er til að fagna auknum áhrifum Rússlands í vestrænu samstarfi. Þvert á móti er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim, einkum í hinu dauðvona varnarsamstarfi vestrænna ríkja í Atlantshafsbandalaginu.

Það er útbreiddur misskilningur, að Rússland sé lýðræðisríki. Kosningar duga ekki einar til þess, svo sem ótal dæmi sanna víðs vegar um þriðja heiminn. Kosningar án dreifingar valdsins jafngilda ekki lýðræði og Vladimír Pútín forseti er afar einræðishneigður, mótaður í leyniþjónustunni.

Rússneskir fjölmiðlar eru skýrasta dæmið um samþjöppun valdsins hjá Pútín. Leynt og ljóst hafa verið keyptir fjölmiðlar, sem voru gagnrýnir á stjórnarstefnuna og reknir þeir fjölmiðlungar, sem ekki voru miðstjórninni þóknanlegir. Fæstir íbúar Rússlands fá aðrar fréttir en þær miðstýrðu.

Rússar vita til dæmis lítið um hryðjuverk hersins í Tsjetsjeníu. Þangað er aðeins hleypt blaða- og fréttamönnum, sem fylgja hinni opinberu stefnu. Öðrum hefur verið misþyrmt, sumir handteknir og allir fluttir á brott. Nokkrir hafa hreinlega verið drepnir að undirlagi hers og stjórnvalda.

Í nýjustu Rússlandsskýrslu International Press Institute eru rakin nokkur dæmi um auknar takmarkanir á málfrelsi. Pútín stjórnar með beinum tilskipunum, þar á meðal illræmdri tilskipun um “upplýsingaöryggi”, sem hefur það hlutverk að múlbinda fjölmiðla á ríkisbásinn.

Öllum tiltækum ráðum er beitt til að fá fjölmiðla til að styðja Pútín í einu og öllu. Skatta- og fjármálalögreglan er send á vettvang, ef fjölmiðill er talinn óþægur, en aldrei, ef hann er talinn þægur. Í heild má segja um stjórn Pútíns, að hún er í grundvallaratriðum fjandsamleg lýðræðinu.

Þeim, sem þekkja til gerða Pútíns, finnst í hæsta máta illa til fundið, að forseti Íslands sé að flaðra upp um hann með óviðurkvæmilegum lofsyrðum. Unnt er að sinna diplómatískum skyldum á miður viðkunnanlegum stöðum, þótt menn reyni að hafa hóf á oflofi sínu í skálaræðum.

Eðlilegt er, að Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið efni til aukinna samskipta við Rússland, ef það er til þess fallið að efla frið og viðskipti. Hins vegar er út í hött að hleypa einræðisstjórn til áhrifa í samtökum, sem hafa varðveizlu og eflingu lýðræðis að hornsteini tilveru sinnar.

Af hagsmunaástæðum var Tyrklandi hleypt í Atlanshafsbandalagið sem öflugu herveldi við suðurjaðar Sovétríkjanna. Aðild Tyrklands hefur jafnan verið feimnismál, enda er landinu að mestu stjórnað af hershöfðingjum, sem stunda hryðjuverk og stríðsglæpi í héruðum Kúrda.

Ef Rússland verður beinn eða óbeinn aðili að Atlantshafsbandalaginu í kjölfar Tyrklands, er skammur vegur að þeim tímamótum, að Ísrael verði tekið inn sem þriðja hryðjuverkaríkið. Einkunnarorð bandalagsins verða þá: Niður með Kúrda, Tsjetsjena og Palestínumenn!

Kominn er tími til að stinga við fótum. Á leið inn í Atlantshafsbandalagið eru sjö til tíu ríki í Austur-Evrópu, sem sum hver búa fremur við formsatriði lýðræðis en innhald þess. Ástæða er til að ætla, að of geyst sé farið í að láta Vesturlönd taka hernaðarlega ábyrgð á gerðum þessara stjórna.

Fáránlegt hrós forseta Íslands í garð forseta Rússlands er sízt til þess fallið að koma einræðisherrum í skilning um, að innihald lýðræðis sé aðgöngumiðinn að vestrænu samfélagi.

Jónas Kristjánsson

FB