Fáir eða fávísir?

Greinar

Þegar hvatt er til aukins stuðnings við listir og menningu, er það oft rökstutt með fámenni þjóðarinnar. Við séum of fá til að halda til jafns við aðrar þjóðir á þessum sviðum, nema opinberir sjóðir og stofnanir komi til skjalanna og bæti fjárhag þeirra, sem fórna sér fyrir listina.

Lausnirnar, sem við sjáum, benda þó til, að ofangreindir listvinir telji vandann í rauninni vera annan og ósagðan. Með því að setja upp nefndir og ráð til að úthluta styrkjum til listamanna er verið að segja, að sérvaldir aðilar hafi meira vit en fávís markaðurinn á því, hvaða list eigi að lifa.

Ef fámenni þjóðarinnar væri talið vera vandinn, mundi lausnin vera önnur. Þá mundu opinberir sjóðir og stofnanir leggja fram fé á móti því fé, sem listamenn fá í markaðshagkerfinu, krónu á móti krónu eða eitthvert annað hlutfall, eftir mati manna á mikilvægi málsins á hverjum tíma.

Á grundvelli slíks skilnings væri talið, að markaðurinn væri einfær um að velja milli listamanna og að hlutverk hins opinbera væri að bæta listamönnum upp fámenni þjóðarinnar. Þráinn Bertelsson kvikmyndastjóri lagði fyrir löngu fram minnisstæða hugmynd um slíkt kerfi.

Úthlutunarkerfi og mótvirðiskerfi leiða til ólíkrar niðurstöðu. Í fyrra tilvikinu er stuðlað að menningu á norrænan hátt og í hinu síðara er stuðlað að menningu á engilsaxneskan hátt. Norrænar þjóðir beita úthlutunarnefndum til að halda uppi menningu, en engilsaxar treysta markaðinum.

Á Norðurlöndum hafa listamenn úthlutunarnefndir fremur en markaðinn í huga, en í stóru löndunum hafa þeir markaðinn í huga fremur en úthlutunarnefndir. Þessi mismunur viðhorfa hefur áhrif á störf listamanna. Spurningin er, hvor leiðin hafi fleiri kosti og færri galla.

Ef við lítum yfir svið norrænnar nútímalistar, sjáum við, að hún rennur fram í breiðum straumi meðalmennskunnar, en getur ekki keppt við listir stórþjóðanna. Magnið er mikið á Norðurlöndum, en topparnir eru lágir og fáir. Úthlutunarnefndir hafa ekki komið mörgum heimsljósum í gang.

Mótvirði vinnur í takt við markaðinn, en úthlutun truflar hann. Mótvirði og markaður mynda einn sameinaðan kraft. Úthlutun drepur kröftunum á dreif með því að líta framhjá markaðinum og reyna jafnvel að bæta það upp, sem skömmtunarstjórar telja vera mistök markaðarins.

Ósvarað er spurningunni, hvert mótvirði eigi að renna, til höfundar eða útgefanda, til leikara eða fyrirtækis leikhópsins. Hver er einingin, sem framleiðir listrænt verðmæti, hinn einstaki listamaður eða reksturinn, sem byggður er upp til að koma framlagi listamanna á markað?

Þægilegast er að miða við minnstu rekstrareiningu, sem hefur afmarkaðar tekjur, hvort sem það er bók, leiksýning, tónleikar, myndverk eða kvikmynd. Ef margir einstaklingar standa að einni rekstrareiningu, verða þeir sjálfir að ákveða, hvernig þeir skipti mótvirði hins opinbera.

Listamenn og hópar listamanna leggja þá fram staðfest skjöl um innkomnar tekjur og fá þá strax einhverja lágmarksprósentu í mótvirði. Í árslok er heildardæmið gert upp og menn fá ábót á mótvirði eftir því, hversu mikið fé er afgangs af því, sem var til ráðstöfunar á fjárhagsáætlun.

Ef menn vilja ekki fara mótvirðisleið, játa þeir um leið, að þeir ætli styrkina ekki til að bæta listamönnum upp fámenni þjóðarinnar, heldur til að bæta þeim upp meinta fávísi hennar.

Jónas Kristjánsson

FB