Réttlæting í Reykjavík

Greinar

Aðstandendur Atlantshafsbandalagsins þurftu ekki að fjölyrða um mikilvægi þess, meðan það var og hét á dögum kalda stríðsins. Þá var það hernaðarbandalag, sem sá um að hindra árás Sovétríkjanna á Vestur-Evrópu. Þá hafði það mikilvæg verkefni, en nú er það orðið að hátíðaræðuklúbbi.

Þeir fáu heimsfjölmiðlar, sem minntust í gær á fund bandalagsins í Reykjavík, voru fáorðir um hann. Enda kalla verkefni Vesturlanda á nýrri öld ekki beinlínis á tilvist bandalags, sem reynir í örvæntingu að finna sér tilverurétt í samkeppni við Evrópusamband og Öryggisstofnun Evrópu.

Fyrrum leppríki Sovétríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu vilja samt komast í bandalagið, svo að Rússland hætti ekki að viðurkenna, að þau eru komin út af áhrifasvæði þess. Fyrst og fremst líta þau þó á aðildina sem gott prik í tilraunum sínum til að komast í sæluna hjá Evrópusambandinu.

Aðild að Atlantshafsbandalaginu kostar peninga til hernaðarútgjalda, sem Mið- og Austur-Evrópa hafa ekki efni á. Ráðamenn þessara ríkja telja hins vegar, að Evrópusambandið hafi gróða í för með sér, en komast ekki þangað fyrr en eftir fjögur ár í fyrsta lagi. Á meðan skála þeir í bandalaginu.

Raunar er það friðurinn um innri markaðinn í Evrópusambandinu, sem hefur treyst öryggi Vestur-Evrópu eftir fall Sovétríkjanna og mun treysta öryggi allrar Evrópu á þessum áratug. Þeir, sem hafa gagnkvæma viðskipta- og gróðahagsmuni, fara ekki í rándýr stríð hver við annan.

Öryggi Evrópu er hvorki ógnað úr austri né vestri. Ógnun nýrrar aldar eru hryðjuverkin, sem munu koma úr suðri. Evrópa mun beita öðrum vopnum gegn þeim en hernaðarmættinum. Aukið eftirlit og auknar innri njósnir verða tæki, sem notuð verða til að verja öryggi Evrópu.

Ráðamenn Bandaríkjanna líta allt öðrum augum á silfrið. Þeim dugar ekki að verjast heima fyrir, heldur vilja þeir herja á rætur hryðjuverkanna, þar sem þær liggja í sumum ríkjum þriðja heimsins. Sá er munur heimsveldis Bandaríkjanna og svæðisveldis sameinaðrar Evrópu.

Bandaríkin telja sig hafa slæma reynslu af samstarfi við máttlítið Atlantshafsbandalag í styrjöld Vesturlanda við Serbíu um yfirráð á Balkanskaga. Þess vegna neituðu þau algerlega að leyfa bandalaginu eða einstökum ríkjum þess að vera með í árásinni á Afganistan í vetur.

Bandaríkin eru enn að reyna að fá Evrópu til að verja meira fé til hermála, en Evrópa er til þess alls ófús, af því að metnaður hennar nær ekki langt út fyrir mörk álfunnar. Því mun Atlantshafsbandalagið aðeins fá að gæta hins bandaríska friðar, þegar Bandaríkin hafa komið honum á.

Evrópusambandið stefnir að yfirtöku hernaðarlegra verkefna í Evrópu og á mörkum álfunnar í suðri, þaðan sem hryðjuverkin koma. Eftir því sem viðskiptaspenna eykst milli Bandaríkjanna og Evrópu, þeim mun ákveðnar mun sambandið stefna að þessu afmarkaða hernaðarmarkmiði.

Atlantshafsbandalagsins bíða í mesta lagi minni háttar störf við friðargæzlu í þriðja heiminum. Þeim mun nauðsynlegra er fyrir bandalagið að halda hátíðlega ræðufundi og taka inn fleiri ríki, sem eru í biðröð eftir að komast í Evrópusambandið og fara þar að græða peninga.

Við þessar aðstæður er vel við hæfi að bandalagið réttlæti tilvist sína á hátíðarfundi við norðurjaðarinn, sem hefur misst síðustu leifar fyrra hernaðarvægis, þegar bandalagið var og hét.

Jónas Kristjánsson

FB