Varnir á krossgötum

Greinar

Við erum hlynnt mannbjörg úr sjávarháska og að gömlum konum sé hjálpað yfir götu í Makedóníu. Þegar hrörnandi Atlantshafsbandalag breytist smám saman úr hernaðarbandalagi í eins konar blöndu slysavarnarfélags og skátahreyfingar, minnkar hér á landi ágreiningur um aðild.

Það er þó háð því, að ekki verði gerðar auknar fjárkröfur til okkar vegna aðildar að bandalaginu eða vegna eftirlitsstöðvar Bandaríkjanna á Keflavíkurvelli. Við getum fjölgað björgunarþyrlum og eflt þjónustu þeirra fyrir peningana, sem við leggjum nú þegar til bandalagsins.

Auðvitað verður að virða það við bandalagið, að það hefur náð árangri og skilað af sér hlutverki sínu. Síðasta verkefnið var friðun Balkanskaga, sem nú er á lokastigi. Hér eftir verða verkefnin fyrst og fremst pólitísk. Bandalagið er gagnlegur, vettvangur samráðs á norðurhveli jarðar.

Gagnið er þó tímabundið og blandað hagsmunum starfsmanna bandalagsins. Ráðamenn Bandaríkjanna hafa mun minni áhuga á því en áður og vilja ekki láta það flækjast fyrir sér í herferðum í þriðja heiminum. Stækkað Evrópusamband mun láta að sér kveða á sviði evrópskra varna.

Í nýrri heimssýn 21. aldar er lítið rúm fyrir bandalagið. Mat aðilanna á gildi þess mun í auknum mæli ráðast af mati á því, hvort það svarar kostnaði eða ekki í samanburði við aðra kosti stöðunnar. Auknar kröfur þess um útgjöld til hermála munu ekki auka vinsældir þess.

Væntanlega verður Ísland í bandalaginu meðan nágrannaríkin vilja vera þar. Við erum háð samskiptum við nágrenni okkar og lifum á viðskiptum við það. Okkar hagur er að taka sem mestan þátt í svæðissamstarfi, þar sem mörg friðsöm ríki setja hluta fullveldis síns í sameiginlegan pakka.

Öryggi okkar í náinni framtíð verður bezt borgið með góðum aðgangi að auðugum markaði. Vont væri að lenda í skotlínu harðnandi viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Fiskverzlun gæti til dæmis hæglega orðið fyrir barðinu á bægslagangi pólitísku stórhvelanna.

Við þurfum að ganga í Evrópusambandið til að tryggja, að fiskafurðir okkar lendi ekki utangarðs vegna atburðarásar, sem við ráðum ekki við. Markaður okkar er fyrst og fremst í stækkuðu Evrópusambandi og hann verðum við að verja með klóm og kjafti, en einkum með aðild.

Við þurfum einnig að efla viðbúnað gegn hryðjuverkum, hvort sem við gerum það í samstarfi í Atlantshafsbandalaginu eða Evrópusambandinu. Við þurfum til dæmis að hafa viðbúnað til að verjast gíslatöku og efnavopnaárás, svo og skemmdarverkum á raflínum og hitaveitum.

Slík vandræði munu ekki koma til okkar með eldflaugum af himnum ofan eða með innrás fjölmennra sveita. Hefðbundnar varnir 20. aldar koma að litlu gagni gegn mönnum, sem bera hættuna í skjalatöskum. Varnir landsins á nýrri öld krefjast nýrra viðhorfa og nýrra viðbragða.

Smám saman mun koma í ljós, hvort gömul stofnun í leit að nýju hlutverki hentar vörnum okkar. Ekki er ágreiningur um, að Atlantshafsbandalagið hefur að undanförnu búið við vaxandi tilvistarkreppu, sem ekki leysist með stækkun til austurs og auknum afskiptum Rússlands.

Altjend leysum við ekki nýjar varnarþarfir okkar ein sér, heldur í samstarfi við nágranna- og viðskiptaríki okkar í Evrópu og undir þeim merkjum, sem hagkvæmust verða á hverjum tíma.

Jónas Kristjánsson

FB