Kjósendum sveiflað

Greinar

Miklar og marktækar sveiflur á stuðningi kjósenda við stóru framboðin í Reykjavík á tveimur síðustu vikum kosningabaráttu vekja fleiri spurningar, en þær svara. Þær hafa vafizt fyrir sérfræðingum í stjórnmálum, markaðsmálum og ímyndarfræðum, sem er þó sjaldnast orða vant.

Við eðlilegar aðstæður má búast við, að flestir kjósendur séu búnir að ákveða sig tveimur vikum fyrir kjördag. Þá hefur öllum, sem vita vilja, lengi verið kunnugt um helztu frambjóðendur og forsögu oddvita framboðanna, svo og yfirlýst markmið þeirra í málefnum borgarinnar.

Ýmsar geta verið orsakir þess, að fylgi tekur að sveiflast út og suður við þessar aðstæður. Áleitnust er spurningin um, hvort tækni eða magn í kosningabaráttu hafi þessi miklu áhrif á lokastigi hennar. Er hægt að hræra í kjósendum og sveifla þeim til og frá eins og þeytispjöldum?

Áður en við gerum of mikið úr þessu, skulum við hafa í huga, að þetta á aðeins við um rúmlega tíunda hvern kjósanda. Einn eða tveir af hverjum tíu kjósendum skipta um skoðun á síðustu tveimur vikunum, sumir raunar oftar en einu sinni. Hinir standa fastir á fyrri skoðunum sínum.

Kosningabaráttan snýst auðvitað um þennan eina eða þessa tvo af hverjum tíu kjósendum. Sérfræðingar framboðanna reyna að haga baráttunni á þann veg, að hún dragi til sín lausgengan minnihluta, sem rambar út og suður, og gæta þess, að hann sé á “réttu” róli á morgni kjördags.

Einföld og þægileg skýring á sveiflum er, að sumir kjósendur taki skoðanakannanir ekki alvarlega á öllum stigum málsins nema undir það síðasta og noti þær raunar til að senda áminningar og önnur skilaboð til framboðanna. Undir niðri séu þeir búnir að ákveða, hvernig þeir kjósi.

Hitt er alvarlegra, ef tækni eða magn kosningabaráttu hefur þessi miklu áhrif á tveimur vikum. Ekki er gott, ef hægt er að sveifla einum eða tveimur af hverjum tíu kjósendum með því að setja nógu mikla peninga í kosningabaráttuna og ráða til hennar nógu marga og hæfa sérfræðinga.

Peningar og tækni kosningabaráttu eru þjóðfélagslegt vandamál. Lýðræðið gerir ekki ráð fyrir, að kjósendur séu svo fávísir, að unnt sé að sveifla þeim til og frá. Ef svo er í raun, munu peningar og tækni framvegis fara ört vaxandi í kosningum. Þetta er verulegt áhyggjuefni.

Kosningabaráttan í Reykjavík verður dýrasta barátta sögunnar, dýrari en síðustu alþingiskosningar. Stóru framboðsöflin verja hvort um sig tugum milljóna til baráttunnar. Þau þurfa einhvers staðar að afla þessara miklu peninga. Við þurfum að fá að vita, hvaðan þeir koma.

Ef þúsund eindregnir stuðningsmenn leggja hver um sig tíu þúsund krónur til framboðs, fæst tíu milljón króna sjóður, er dugar skammt í því stríði, sem við höfum séð að undanförnu. Einhverjir stórlaxar hljóta því að spýta miklu fé, sumir hverjir til að afla sér betri aðstöðu.

Kosningabarátta allra síðustu vikna hlýtur að magna kröfuna um, að fjárreiður stjórnmálanna verði gerðar gegnsæjar. Ennfremur hlýtur hún að magna þá kröfu á hendur kjósendum, að þeir láti flokka framvegis gjalda þess, ef þeir standa í vegi fyrir, að fjárreiðurnar verði gegnsæjar.

Lýðræði stendur og fellur með því, að kjósendur hafi aðstöðu til að skilja gangverkið í pólitíkinni, þar á meðal, hvernig fjármagnaðar eru aðferðir, sem duga til að sveifla kjósendum út og suður.

Jónas Kristjánsson

FB