Múrarnir rísa

Greinar

Með valdatöku George W. Bush Bandaríkjaforseta hófst nýtt tímabil verndarstefnu í heimsviðskiptum. Í stað gagnkvæmra lækkana á tollum og öðrum viðskiptahömlum eru stóru viðskiptablokkirnar í heiminum komnar á fulla ferð við að loka landamærunum fyrir vörum annarra.

Stáltollur Bandaríkjanna í upphafi þessa árs varð kveikjan að stóru báli. Evrópusambandið segist svara tollinum með eigin stáltolli og tollum á ávexti og vefnaðarvörur. Síðan tilkynntu Bandaríkin tæplega tvöföldun á stuðningi ríkisins við ýmsar innlendar landbúnaðarafurðir.

Þessar þrjár aðgerðir eru ekki einangraðar. Á fundum Heimsviðskiptastofnunarinnar upp á síðkastið hafa auðríkin eindregið tregðazt við að veita þriðja heiminum sama aðgang fyrir landbúnaðarafurðir og ríku löndin krefjast og hafa sumpart fengið fyrir iðnaðarvörur og þjónustu.

Tollmúrar Vesturlanda gagnvart landbúnaðarvörum þriðja heimsins nema tvöfaldri aðstoð Vesturlanda við þriðja heiminn. Þeir eru uppspretta fátæktar í þriðja heiminum og haturs í þriðja heiminum á Vesturlöndum, einkum á Bandaríkjunum sem forusturíki auðræðis.

Tollar og hömlur Vesturlanda miðast við sérhagsmuni ýmissa gæludýra í atvinnulífinu og stríða gegn almannahagsmunum í þessum sömu löndum. Höftin draga úr samkeppni og gera vörur og þjónustu dýrari en hún væri í frjálsri verzlun. Þau hækka verðlag og rýra kjör almennings.

Hagfræðin segir okkur þetta, en hún ræður því miður ekki ferðinni. Bandaríski stáltollurinn og stuðningurinn við innlenda búvöru eru sértækar aðgerðir, sem eiga að afla fylgis við forsetann í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, þar sem fylgið er talið standa í járnum í næstu kosningum.

Gagnaðgerðir Evrópusambandsins eru líka pólitískar, því að þeim er ætlað að koma niður á þessum sömu ríkjum Bandaríkjanna. Markmiðið er að sýna fram á, að eyða megi áhrifum sértækra aðgerða með sértækum gagnaðgerðum, sem veikja stöðu forsetans í þessum mikilvægu ríkjum.

Staða frjálsrar verzlunar hefur stórversnað síðan Ronald Reagan var forseti Bandaríkjanna. Hann lagði ætíð mikla áherzlu á, að farið væri eftir alþjóðlegum viðskiptasamningum. George W. Bush hefur varpað slíkri hugsun á dyr og lætur kosningaspár einar ráða ferðinni.

Komið hefur í ljós á ýmsum sviðum, að núverandi forseti Bandaríkjanna er andvígur alþjóðasamningum yfirleitt, af því að þeir skerða svigrúm hans. Þess vegna telja önnur ríki tilgangslaust að gera nýja samninga og því verður mjög erfitt að vinda ofan af hinu nýja viðskiptastríði.

Skammsýni hans hefur ekki aðeins kallað á hefndaraðgerðir Evrópusambandsins. Hún hefur líka fordæmisgildi. Úr því að Bandaríkin láta eins og Heimsviðskiptastofnunin sé ekki til, telja önnur ríki, að sér leyfist slíkt líka. Þannig sprettur upp viðskiptastríð, sem allir aðilar tapa.

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur með hjálp Evrópusambandsins tekizt það, sem andstæðingum hnattvæðingar tókst ekki með mótmælum í Seattle, Prag og Katar. Hnattvæðingin hefur verið stöðvuð. Frá og með þessu ári eru múrar hafta og tolla að rísa að nýju, fyrst á Vesturlöndum.

Ísland lifir á viðskiptum og getur lent í skotlínunni, þegar stórveldin berjast með höftum og tollum. Landsfeður okkar hafa látið hjá líða að tryggja okkur örugga höfn í Evrópusambandinu.

Jónas Kristjánsson

FB