Halldór segir jafnan pass

Greinar

Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir jafnan pass, þegar upp úr sýður í stjórnarsamstarfinu. Hann ber jafnan klæði á vopnin og segir eðlilegt, að menn hafi misjafnar áherzlur. Honum líður bezt í ferðalögum til útlanda og vill ekki með neinu móti láta rugga báti þessarar ríkisstjórnar.

Hann lætur ekki á sig fá, þótt upp úr sjóði vegna ólíkra viðbragða við öryrkjadómi Hæstaréttar, vegna ósamkomulags um kvótasetningu smábáta, vegna þverstæðra skoðana á einkavæðingu stofnana á borð við Landssímann og vegna ágreinings um viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra.

Hann segir líka pass, þegar forsætisráðherra ákveður að leggja niður Þjóðhagsstofnun án þess að ræða málið við samstarfsráðherra. Hann segir jafnvel pass, þegar forsætisráðherra segir “yfirgripsmikið þekkingarleysi” felast í skoðunum af tagi utanríkisráðherra á aðild að Evrópu.

Sennilega hefur hann ákveðið með sjálfum sér, að það sé bara stíll núverandi forsætisráðherra að flytja mál sitt með slíkum skætingi, að hann sakar jafnvel þá um fáfræði, sem fara með réttar tölur um niðurstöður í kosningum fyrri tíma, ef hann sjálfur hefur fengið rangar tölur í kollinn.

Utanríkisráðherra vill greinilega margt vinna til að halda friðinn í stjórnarsamstarfinu. Mest notaða og sennilegasta skýringin er, að hann sé brenndur af slæmri reynslu af samstarfi Framsóknarflokksins til vinstri og hafi litla trú á samstarfsgetu forustumanna þeirra flokka.

Auk þess hefur hann smám saman lifað sig inn í utanríkismálin og telur sig geta sinnt þeim betur en nokkur annar. Smám saman hefur hann orðið afhuga hversdagslegum vandamálum hér heima, ekki bara samstarfsvanda ríkisstjórnarinnar, heldur líka agavandræðum í eigin flokki.

Utanríkisráðherra hefur lengi átt erfitt með að taka einarðlega afstöðu í valdabrölti ráðamanna í flokknum. Einkum hefur hann átt erfitt með að taka afstöðu í baráttunni um ráðherrasæti, sem losna. Einnig lætur hann yfir sig ganga, að formaður þingflokksins haldi sig á sérleiðum.

Utanríkisráðherrann kemst upp með að stunda ekki starf sitt sem flokksformaður af því að hann er vel látinn og lítið er um frambærilega prinsa í flokknum. Ríkiserfinginn flúði raunar skyndilega af hólmi inn á grænar grundir Seðlabankans, þar sem hann má næðis njóta til fullnustu.

Allt þetta ferli, sem hér hefur verið lýst, á þátt í daufu fylgi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum, sem sýna hver á fætur annarri, að flokkurinn er orðinn minnstur fjórflokkanna. Með sama áframhaldi fær flokkurinn slæma útreið í alþingiskosningum, sem verða eftir aðeins eitt ár.

Ekkert bendir til, að utanríkisráðherra hætti að segja pass í ríkisstjórninni og að flokksformaðurinn hætti að segja pass í stjórnmálaflokki sínum. Sterku mennirnir umhverfis hann, allt frá þingflokksformanninum upp í forsætisráðherrann, munu í auknum mæli valta yfir hann.

Deilumálin fara ört vaxandi kringum Halldór Ásgrímsson. Einkum vex kergjan í ríkisstjórninni. Nú síðast hefur umræðan um aukna aðild að Evrópu magnað ófrið á stjórnarheimilinu. Loks hefur áminningin, sem heilbrigðisráðherra var veitt, ekki fallið í góðan jarðveg flokksmanna.

Hneykslaðir flokksjaxlar heimta, að formaðurinn stingi við fótum og hætti að segja pass. Hann er hins vegar sæll á svip á ferðalagi meðal hryðjuverkamanna fyrir botni Miðjarðarhafs.

Jónas Kristjánsson

FB