Ofstæki á jaðri atómstríðs

Greinar

Með vinum á borð við herforingjann Pervez Musharraf í Pakistan þarf George W. Bush Bandaríkjaforseti enga óvini í sunnanverðri Asíu. Musharraf er ofstækismaður, sem er einfær um að koma af stað atómstríði út af Kasmír í skjóli aðstoðar hans við Bandaríkin í Afganistan.

Slæm reynsla er af hagsmunatengslum Pakistans og Bandaríkjanna frá dögum Sovétríkjanna. Með bandarísku ríkisfé ræktaði Pakistan flokk talibana í Afganistan til að siga á Sovétríkin. Síðan misstu Bandaríkin stjórn á þessum uppvakningi eins og þau misstu stjórn á Ísraelsríki.

Musharraf hershöfðingi var sjálfur yfirmaður róttækra aðgerða hersins í Pakistan gegn Indlandi árið 1999, þegar hann lét ekki nægja að þjálfa og kosta sjálfstæða hryðjuverkahópa innfæddra Kasmírbúa, heldur sendi beinlínis pakistanska herflokka inn fyrir landamæri Kasmírs.

Pakistanski herinn og leyniþjónusta hans hafa komið á fót hryðjuverkasamtökum á borð við Jaish-e-Mohammed, sem réðust árangurslaust á þinghús Indlands 27. desember í fyrra. Leiðtogi samtakanna lifir á háum pakistönskum ríkislaunum í glæsilegri ríkisvillu í Islamabad.

Pakistan er ríki hers og trúar. Stundum hafa verið haldnar þar kosningar til málamynda, en herinn tekur völdin, þegar honum þóknast, sem gerist æði oft. Musharraf er síðastur í langri röð valdaræningja og engan veginn sá eini, sem hefur verið þóknanlegur bandarískum stjórnvöldum.

Í Pakistan fara allir peningar í herinn. Þar er ekkert opinbert menntakerfi, sem heitið getur. Þar eru hins vegar rúmlega 6.000 trúarskólar, sem unga út ofstækismönnum á borð við þá, sem áður fylltu raðir talibana og al-Kaída í Afganistan og nú fylla raðir hryðjuverkamanna í Kasmír.

Pakistan er efnahagslega og pólitískt misheppnað ríki, þar sem herinn ræktar völd sín með bandalagi við trúarskóla um að dreifa athygli ungra manna frá innanlandsvanda að heilögu stríði við Indland út af Kasmír. Í nokkur ár hefur þessi hættulegi her ráðið yfir kjarnorkuvopnum.

Að upplagi hefur sjálfstæðisbarátta Kasmírbúa stefnt að sjálfstæði, en ekki innlimun í Pakistan. Hryðjuverkum á vegum hersins í Pakistan hefur ekki aðeins verið beint gegn Indverjum, heldur einnig gegn leiðtogum þess meirihluta Kasmírbúa, sem kærir sig hvorki um Indland né Pakistan.

Öfugt við Pakistan ræður herinn í Indlandi ekki ferðinni þar í landi. Þar ríkja borgaraleg stjórnvöld að vestrænum hætti, þar sem valdamenn koma og fara eftir úrslitum kosninga. Þar hefur í stórum dráttum tekizt að halda frið milli trúarflokka og í alvöru verið reynt að hemja ofsatrúarmenn.

Í Indlandi er í vaxandi mæli farið eftir vestrænum efnahagslögmálum, sem hafa gefið mikinn og stöðugan hagvöxt af sér og lyft þjóðinni úr sárustu fátækt upp í sára fátækt. Indland er pólitískt og efnahagslega eðlilegur bandamaður Vesturlanda í baráttunni um hugi og hjörtu mannkyns.

Þessi tvö ólíku ríki ramba nú á barmi atómstríðs út af Kasmír, samtals með eina milljón manna undir vopnum á landamærunum, hvort um sig með atómvopn í handraðanum. Forsetar Rússlands og Kína eru þessa dagana að reyna að miðla málum á fundi deiluaðila í Almaty í Kazakstan.

Þar sem Musharraf herforingi er skjólstæðingur Bandaríkjastjórnar má ætlast til þess af ráðvilltu heimsveldinu, að það hindri að minnsta kosti, að ofstækismaðurinn beiti atómvopnum.

Jónas Kristjánsson

FB