Traustið étið

Greinar

Fræðimenn taka af höfuðstól traustsins í hvert skipti, sem þeir þjónusta hagsmunaaðila með hagstæðri niðurstöðu í svokallaðri óháðri úttekt á umdeildu máli. Frægar eru skýrslur lögmanna, sem jafnan þjónusta umbjóðandann. En virðulegar stofnanir lenda líka í slíkum hremmingum.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gladdi forsætisráðherra í þessari viku með skýrslu, sem hann bað um og fjallaði um kostnað ríkisins af aðild að Evrópusambandinu. Þar gaf stofnunin sér, að útgjöld aðildarríkja til sambandsins mundu hækka úr 1,27% af landsframleiðslu í 1,4%.

Þetta er það, sem hagfræðideild Dresden-banka telur að gera þurfi, þegar fátæku ríkin í Austur-Evrópu ganga í bandalagið. Til þess að svo megi verða, þurfa þjóðþing allra aðildarríkjanna að samþykkja hækkunina. Pólitískt raunsætt er að telja alls engar líkur vera á slíkri gjafmildi.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands tók víðar af höfuðstól traustsins í skýrslunni. Hún uppfærði tölur með verðbólguspám fram í tímann, þótt verið sé að fjalla um mál, þar sem verðbólgan hefur sömu áhrif á gjöld og tekjur. Á verðlagi líðandi stundar gefur niðurstaðan ýkta mynd.

Alvarlegast er, að hagfræðistofnunin sættir sig auðmjúklega við þær þröngu skorður, sem forsætisráðherra setti henni, að fjalla aðeins um þátt ríkisins í reikningsdæmi aðildarinnar, en fjalla ekki um áhrif aðildarinnar á þjóðfélagið í heild, sem eru miklu meiri en áhrifin á ríkisvaldið.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur á veikum forsendum Dresden-banka, að þátttaka í Evrópusambandinu muni kosta 9 milljarða króna á ári. Þessi tala fellur í skugga 15 milljarða árlegs hagnaðar okkar af vaxtalækkun og annars eins hagnaðar okkar af bættu viðskiptaumhverfi.

Hagurinn af aðild að Evrópusambandinu felst einmitt í, að okkar ríkisvald tekur á sig kostnað til að vextir, vöruverð og útflutningskostnaður okkar geti lækkað. Verið er að fórna minni hagsmunum ríkissjóðs fyrir meiri hagsmuni atvinnulífsins og heimilanna, það er þjóðfélagsins í heild.

Þótt ríkið muni hafi hreinan kostnað af aðild, sem telja má í nokkrum milljörðum króna á hverju ári, hefur þjóðfélagið í heild á hverju ári hreinan hagnað, sem er að minnsta kosti þrefaldur á við þann kostnað. Tölur ríkisins eru lítill hluti af heildartölum aðildar að Evrópusambandinu.

Þegar lagt er upp með þá forsendu, að eingöngu sé skoðuð neikvæða hliðin, er augljóst, hver útkoman verður. Heilbrigð dómgreind og pólitískt innsæi hefði átt að segja hagfræðistofnuninni, að forsætisráðherra hygðist misnota niðurstöðurnar. Samt lét hún teyma sig á asnaeyrunum.

Það er ekki nóg að geta þess í eftirmála, að verksvið rannsóknarinnar hafi verið afar takmarkað og telja sig þar með vera stikkfrí. Ljóst mátti vera, að niðurstöðutölurnar um áhrifin á ríkissjóð mundu ekki bara gefa skekkta, heldur beinlínis kolranga mynd af áhrifunum á þjóðfélagið í heild.

Aðstandendur stofnana, sem vilja varðveita gamalt traust, verða að hafa dómgreind til að sjá gegnum forskriftir viðskiptavina sinna og neita að fylgja þeim í einu og öllu. Þeir þurfa að víkka sjónarhornið, svo að ekki verði unnt að rangtúlka niðurstöðu á þröngu sviði yfir á málið í heild.

Hér eftir munu menn spyrja: “Hver borgaði”, þegar Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birtir niðurstöður í umdeildum málum. Það er nefnilega ekki bæði hægt að éta traustið og eiga það.

Jónas Kristjánsson

FB