Illmennið kemur

Greinar

Jiang Zemin, forseti Kína. er helzti harðlínumaður kommúnista þar í landi, ráðinn framkvæmdastjóri flokksins í kjölfar fjöldamorðanna á Torgi hins himneska friðar árið 1989, þegar Deng Xiaoping einræðisherra þótti þáverandi stjórnendur vera of linir við andófsmenn í landinu.

Jiang er þekktur fyrir ögrandi stefnu gagnvart nágrannaríkjunum, auknar heræfingar á sundinu milli Kína og Tævan, landgöngur hersins á afskekktum eyjum Filipseyja, fyrirlitningu á lýðræðislegum vilja meirihluta íbúanna í Hong Kong og fyrir stóraukna grimmd við Tíbetbúa.

Mannvonzka Jiang kemur bezt fram í ofsóknum ríkisins á hendur Falun Gong. Tugþúsundir félagsmanna hreyfingarinnar hafa verið handteknir og pyndaðir af skefjalausri grimmd, 400 þeirra til dauða, þar af 100 á síðasta ári. Þetta er versti bletturinn á stjórnarfarinu í Kína.

Falun Gong er félag fólks, sem stundar kerfi hugleiðslu- og öndunaræfinga, sem helzt minna á indverskt jóga. Hún ögrar ráðamönnum með því að stunda friðsamar æfingar sínar á almannafæri. Hvergi eru dæmi um, að félagsmenn hafi abbast upp á lögreglu eða efnt til óeirða.

Kerfinu í Kína er illa við Falun Gong, ekki bara af því að samtökin geta það, sem kommúnistaflokkurinn getur ekki, höfðað til þrár fólks til innra jafnvægis og betra mannlífs, heldur einkum af því að þau sýna þetta opinberlega og fletta þannig óbeint ofan af siðferðisgjaldþroti flokksins.

Engin stjórnvöld í heiminum hafa nokkuð upp á Falun Gong að klaga. Það er hrein lygi utanríkisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis Íslendinga, að þýzk stjórnvöld eða einhver önnur hafi lent í erfiðleikum með Falun Gong út af fjölþjóðaráðstefnum eða heimsóknum valdamanna.

Gersamlega er óskiljanlegt, að íslenzk stjórnvöld skuli láta kínversk stjórnvöld skerða fullveldi Íslands með því að láta banna komu félagsmanna í Falun Gong til Íslands í tilefni af komu hryðjuverkamannsins Jiang Zemin í opinbera heimsókn til landsferðranna á Íslandi.

Utanríkis- og dómsmálaráðuneytið misnota heimildir, sem henta til að koma í veg fyrir, að fjölþjóðleg glæpasamtök á borð við Vítisenglana sendi hópa af fólki til landsins. Ekki var stofnað til slíkra heimilda til að koma í veg fyrir heimsókn fólks, sem ekki leggur hendur á nokkurn mann.

Einnig er gersamlega óskiljanlegt, að íslenzk stjórnvöld skuli yfirleitt bjóða ofsækjanda Falun Gong til Íslands, einkum þekktasta grimmdarseggi, sem uppi er í heiminum um þessar mundir, og fulltrúa þeirra stjórnvalda, sem eru mesta ógnunin við heimsfriðinn um þessar mundir.

Landsfeður okkar hafa orðið sér alþjóðlega til skammtar með því að bjóða Jiang Zemin til Íslands og neita félagsmönnum Falun Gong að koma til Íslands á sama tíma. Landsfeður okkar hafa vakið athygli á sér fyrir óþarfa þjónustulund við síðasta vígi kommúnismans í heiminum.

Af þessu tilefni er kominn tími til að setja skorður við gagnkvæmum heimsóknum íslenzkra ráðamanna og erlendra harðstjóra og setja skorður við misnotkun ríkisvaldsins á reglum, sem snúast um öryggi ríkisins, en ekki um óviðkunnanlega kurteisi í garð erlendra harðstjóra.

Nærvera Jiang Zemin og fjarvera Falun Gong er svartur blettur á ríkisstjórn okkar og um leið mikil vanvirða Íslands. Í þessari viku er ástæða til að skammast sín fyrir að vera Íslendingur.

Jónas Kristjánsson

FB