Verjum traustið

Greinar

Hringt var á bjöllunni, þar sem ég var staddur hjá íslenzkri fjölskyldu í New York. Úti var fjölskyldufaðir í götunni, sem gekk milli húsa með yfirlýsingu, þar sem foreldrar áttu að undirrita, að þeir mundu ekki lögsækja hann, ef eitthvað kæmi fyrir í yfirvofandi barnaafmæli.

Í samtölum við íslenzka kaupsýslumenn vestan hafs kom fram, að ekki er lengur hægt að gera stuttaralega samninga og hvað þá munnlega samninga, sem staðfestir eru með handsali. Nú eru samningar nokkur hundruð síður, þar sem tekið er á öllum hugsanlegum ágreiningsatriðum.

Nútíminn er kominn langt frá ítölskum kaupmönnum miðalda, er lyftu Evrópu inn í nýja öld með pappírslausum viðskiptum, sem ekki var einu sinni hægt að handsala, af því að mánaðar ferðalag aðskildi samningsaðila. Menn sendu vörur í trausti þess að fá þær greiddar með öðrum vörum.

Allar götur síðan hafa viðskipti byggzt á trausti eins og önnur samskipti manna. Traustið er forsenda velmegunar og lýðræðis Vesturlanda nú á tímum. Án þess væri mannfélagið sundrað í fámenna hópa, sem berðust um svigrúm að hætti frumsteinaldar og mafíuflokka Sikileyjar.

Þar sem alltaf eru til einstaklingar, sem reyna að misnota almennt samkomulag manna um að treysta hver öðrum, hefur smám saman verið byggt upp flókið kerfi laga og reglugerða um fjárhagsleg og önnur samskipti, fyrst innan einstakra ríkja og síðan á fjölþjóðlegum grundvelli.

Evrópusambandið er tröllaukið kerfi reglugerða, þar sem leikreglur á öllum sviðum eru skráðar í smáatriðum, svo að unnt sé að stunda vel slípuð viðskipti án þess að gera um þau samninga upp á mörg hundruð síður og efna til barnaafmæla án þess að fá foreldra til að hafna málsókn.

Íslendingar hafa alltaf treyst hver öðrum. Orð skulu standa, sögðu fornmenn. Þeir sögðu líka, að með lögum skyldi land byggja. Það er fyrst á síðustu áratugum, að brestir hafa komið í traustið milli manna . Mest hefur borið á því í stjórnmálum, þar sem menn freistast til að lofa öllu fögru.

Bandarískt menntaðir spunameistarar ímyndarfræða í ráðgjafarstöðum stjórnmála og viðskipta hafa stuðlað að auknu áti á trausti. Í vaxandi mæli er svart sagt vera hvítt. Í vaxandi mæli skammast menn sín ekki, þegar upp um þá kemst, heldur segja þeir bara: Það gengur betur næst.

Sérfræðistofnanir éta traustið, þegar þær þjónusta viðskiptavini með hagstæðum niðurstöðum. Vinnuveitendur éta traustið, þegar þeir lofa starfsmönnum einhverju, sem þeir standa ekki við. Stjórnmálamenn éta traustið, þegar þeir gefa kjósendum rangar upplýsingar um stöðu mála.

Til að hamla gegn þessu og halda þjóðfélaginu vel smurðu sem framleiðsluvél velmegunar, verða kjósendur í auknum mæli að hafna stjórnmálamönnum, sem éta traustið. Þannig heldur fólk uppi aga í stjórnmálum og raunar í viðskiptum um leið, því að eftir höfðinu dansa limirnir.

Því fleiri valdamenn í stjórnmálum og viðskiptum, sem sjá sér skammtímahag í að éta traust, þeim mun meira þurfa aðrir að sporna við fótum, svo að fólk geti notið þess að lifa áfram í þægilegu andrúmslofti trausts og athafnamenn fái frið fyrir neðanbeltishöggum umhverfisins.

Át á trausti stefnir skipulagi lýðræðis og auðhyggju í voða. Mikil vörn er í hátimbruðum reglugerðum, en ekkert getur komið í staðinn fyrir gamaldags traust í mannlegum samskiptum.

Jónas Kristjánsson

FB