Talibani í Hvíta húsinu

Greinar

Fimmtíu ríki Múhameðs spámanns, Vatíkanið í Róm og samtök kristilegra ofsatrúarsafnaða í Bandaríkjunum hafa tekið höndum saman um að hindra ný ákvæði í sáttmálum Sameinuðu þjóðanna um aukinn rétt barna og kvenna. Einkum eru þessir aðilar andvígir fé til fóstureyðinga.

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur lagt lóð sitt eindregið á vogarskál hinna trúuðu róttæklinga. Hann hefur skipað harða andstæðinga fóstureyðinga í bandarískar sendinefndir á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og hindraði þannig árangur á nýlegri barnaráðstefnu þeirra.

Á þessu sviði og ýmsum skyldum sviðum eru Bandaríkin komin í sveit með ríkjum á borð við Súdan, Írak og Íran og berjast með þeim gegn eindreginni fylkingu ríkja Vestur-Evrópu, sem vilja auðvelda fóstureyðingar í þriðja heiminum, meðal annars til að hafa hemil á eyðni.

Bush Bandaríkjaforseti hefur fleiri járn í eldinum. Hann vill ekki, að Bandaríkin staðfesti sáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1980 um aukinn rétt kvenna og barna. Allur þorri ríkja heims, 169 ríki alls, hafa staðfest sáttmálann, en ríkisstjórn Bandaríkjanna hafnar honum.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið er enn að skoða samninginn og hefur allt á hornum sér. Samt fjallar hann fyrst og fremst um, að konur og börn í þriðja heiminum fái sama rétt og þau hafa í ríku löndunum. Til dæmis bannar hann, að konur séu grýttar til dauðs fyrir að vera nauðgað.

Viðhorf forsetans endurspeglar í smáatriðum stefnu samtaka kristilegra ofsatrúarsamtaka, sem telja aukinn rétt barna og kvenna draga úr eðlilegu feðraveldi, sem sé vilji guðs. Sömu skoðunar eru talibanar í Afganistan, sem einnig gerðu það sem þeir gátu til að takmarka réttindi kvenna.

Óneitanlega er það sérkennileg staða í alþjóðapólitíkinni, að fulltrúar Bandaríkjanna á ráðstefnum Sameinuðu þjóðanna sitji úti í hornum á klíkufundum með fulltrúum Súdans, Íraks og Írans til að skipuleggja baráttu gegn evrópskum hugmyndum af veraldlegu tagi.

Til skamms tíma hvíldu yfirburðir Vesturlanda í heiminum meðal annars á aðskilnaði borgaralegra málefna og trúarlegra, meðan ríki Múhameðs spámanns höfðu guðstrúna ofar öllu og settu hvers kyns viðfangsefni í trúarlegt samhengi. Banda- ríkin hafa nú flutt sig í þær herbúðir.

Til skamms tíma hvíldu yfirburðir Vesturlanda í heiminum meðal annars á jafnrétti fólks. Feðraveldi hefur fyrir löngu verið hafnað og reynt er að nýta hæfilega kvenna í þágu efnahagslegra framfara. Í heimi talibana og forseta Bandaríkjanna er staður konunnar hins vegar á heimilinu.

Vesturlönd hafa áratugum saman reynt að útbreiða mannréttindi í ríkjum þriðja heimsins á grundvelli yfirlýsinga Sameinuðu þjóðanna. Með nýjum sáttmálum á ýmsum sérsviðum mannréttinda hefur verið takmarkað svigrúm harðstjóra þriðja heimsins til að níðast á fólki sínu.

Hingað til hafa Bandaríkin tekið þátt í þessari viðleitni vesturlanda. Með komu Bush í valdastól hefur það breytzt. Nú er Bandaríkjastjórn almennt andvíg takmörkunum á svigrúmi sínu á alþjóðlegum vettvangi, sérstaklega ef þær takmarkanir espa stuðningsmenn hennar á heimavelli.

Á skömmum tíma hafa málin skipazt á þann veg, að Bandaríkin eru komin í bandalag við Súdan, Írak og Íran og að gerðir forsetans minna í vaxandi mæli á stefnuskrá talibana í Afganistan.

Jónas Kristjánsson

FB