Rómarveldi nútímans

Punktar

Samanburður Bandaríkja hinna nýju og Rómarveldis hins forna hefur á síðustu mánuðum verið hugleikinn sagnfræðingum og dálkahöfundum stórblaða. 10. apríl í vor skrifaði ég grein í Fréttablaðið um þetta efni, “Tuttugu öldum of seint”, þar sem ég efaðist um, að Bandaríkjamenn mundu treysta sér til að vera árlega í styrjöldum úti um heim að hætti Rómverja, þótt þeir tali digurbarkalega um Osama bin Laden og Saddam Hussein.
Í dag skrifar Jonathan Freedland langa grein í Guardian, þar sem hann líkir saman Róm og Bandaríkjunum á mörgum sviðum, einkum í hernaðarlegum og tæknilegum yfirburðum og þörf beggja á að heyja stríð til að fá umheiminn til að óttast sig. Sumir ráðamenn í Bandaríkjunum eru raunar orðnir skelfilega hrokafullir að hætti Rómverja. En hann kemst að sömu niðurstöðu og ég, að Bandaríkjamönnum muni ekki til lengdar líða vel í blóðugum fótsporum Rómverja.